miðvikudagur, ágúst 23, 2006

23. ágúst 2006 – Húsfreyjugeninu skilað

Þá er ég laus við húsfreyjugenið til Pollýönnu. Reyndar þóttist Steini litli eiga það, en það stenst ekki því að honum tókst að brenna við steikina á grillinu áður en hann kveikti á því. Það er einnig tíðinda að Tárhildur litla gerðist ljósmyndafyrirsæta í gær, en Hrafnhildur lét ekki sjá sig á meðan, vafalaust í fýlu úti í garði á meðan. Hún svaraði ekki einu sinni þegar ég kallaði í hana, öfugt við Tárhildi sem ávallt svarar þegar ég mjálma að henni.

Fyrsta frétt í seinni fréttum sjónvarpsins á þriðjudagskvöldið var um einhvern forðafræðing hjá Orkuveitu Reykjavíkur sem fær ekki að tjá sig neikvætt um Landsvirkjun opinberlega. Ég veit ekkert um þetta mál, þræti eins og sprúttsali og hefi aldrei séð eða heyrt þennan starfsmann Orkuveitunnar, þótt ég hafi starfað þar í tæp tíu ár. Að auki er hann örugglega á miklu hærri launum en ég.

Hver vill koma með mér í þægilega fjallgöngu á fimmtudag eftir hádegi?

-----oOo-----

Ég las það í fréttum að lögreglan hefði sektað nokkra fyrir leyniakstur með því að gefa ekki stefnuljós. Það var kominn tími til.


0 ummæli:







Skrifa ummæli