föstudagur, ágúst 04, 2006

4. ágúst 2006 - Sigurður Kári og Valdi koppasali

Í dagblaði einu sem gefið er út í Reykjavík, er sagt frá svaðilförum hinna ungu alþingismanna Björgvins Sigurðssonar og Sigurðar Kára auk hins gamalreynda Jóns Kristjánssonar er þeir héldu á ráðstefnu norður til Kiruna. Að sögn þeirra félaga var þetta hin versta svaðilför og misstu þeir af stórum hluta ráðstefnunnar og hefðu misst af henni allri ef þeir hefðu ekki sjálfir gripið til sinna ráða. Miklar hetjur, Björgvin og Sigurður Kári. Ekki veit ég hvernig íslensk dagblöð færu að ef þau hefðu ekki Björgvin Sigurðsson og Sigurð Kára Kristjánsson til að bera í sig fréttirnar af svaðilförum sínum.

Í desember 2004 var Sigurður Kári Kristjánsson í flugvél á leið til Lundúna frá Mið-Evrópu í hópi einhverra alþingismanna, en ekki þori ég að fullyrða hvort Björgvin hafi verið í þeim hópi. Þar sem hann sat í vélinni fannst einhver ókennileg lykt í farþegarýminu. Skömmu síðar heyrði Sigurður Kári flugfreyju hvísla einhverju að annarri flugfreyju og sú hin sama svaraði hinni fyrstu með orðunum “Oh my God”. Fáum sögum fer af því hvort lyktin hafi magnast í farþegarýminu eftir þetta, en Sigurður Kári Kristjánsson sá ástæðu til að tilkynna þetta sérstaklega í blöðin eftir að heim var komið. Taldi Sigurður Kári að hann hefði lent þarna í mikilli lífshættu og mátti ráða af fréttaflutningi af málinu að furðulegt hafi verið að ekkert var tilkynnt um þetta til farþeganna og ekki einu sinni reynt að nauðlenda vélinni.

Mér finnst það ætti að vara flugmenn sérstaklega við því ef Sigurður Kári á bókað far með vélinni, svo hægt sé að halda blaðamannafund eftir lendingu og tilkynna til fjölmiðla að allt hafi gengið að óskum.

-----oOo-----

Ég týndi hjólkopp af bílnum mínum um daginn. Hann hafði greinilega verið illa festur eftir viðgerð á framdrifinu og einn daginn veitti ég því athygli eftir að ég hafði skroppið suður í Smáralind, að koppurinn var horfinn. Mér finnst alltaf ljótt að sjá svarta og skítuga felguna á bíl svo ég notaði tækifærið á fimmtudag, eftir að hafa verslað lítilsháttar í bænum og fór að kíkja á bílapartasölur í von um að þeir ættu svipaðan kopp og þann sem ég týndi. Allsstaðar sem ég kom sögðust menn ekki eiga svona koppa, en Valdi koppur á örugglega eitthvað til handa þér.

Að lokum renndi ég uppeftir til Valda. Mikil ósköp. Valdi átti til kopp sem passaði. Hann hafði meira að segja fundið kopp, nákvæmlega eins og mig vantaði, kvöldið áður við mislægu gatnamótin við Smáralindina.

Týndi koppurinn er kominn heim.


0 ummæli:Skrifa ummæli