þriðjudagur, ágúst 29, 2006

29. ágúst 2006 – Gróa á Leiti komin í dagsljósið

Oddur “spekingur” Helgason og neftóbaksættfræðingur var í útvarpsviðtali fyrr í sumar þar sem hann vildi ekki tjá sig um öfundarfólk sitt og óvini, en nefndi Gróu á Leiti til sögunnar. Sjálfri datt mér strax til hugar að ég væri í þessum hópi öfundarmanna Odds. Nú hefur heldur betur rekið á fjörur þess gamla því nú er hann að verða kvikmyndastjarna. Það er verið að gera heimildarkvikmynd um íslenska ættfræði og kvikmyndagerðarmenn mættu til Odds um daginn og mynduðu hann við iðju sína.

Kona ein sem ég kannast við og býr úti á landi, fann hjá sér þörf til að fræðast aðeins um einstöku kima ættfræðinnar og hringdi í Odd Helgason í gær. Samtalið var eitthvað á þessa leið:

Ég fór og hringdi í kvikmyndastjörnuna, og nefndi það við hann að það vantaði upplýsingar um útgáfuna hans á heimasíðunni, ég er ekkert að gefa út sagði karl, nú sagði ég, en færð útgáfustyrki...já þeir kalla þetta það, ég er að búa til þjóðargrunn handa skjalasöfnum og öðrum sagði karl þá, já sagði ég og ert búinn að fá 2,6 milljónir í útgáfustyrk, nei nei segir hann það var ekki nema milljón....já en á 3 árum sagði ég er upphæðin þessi. Það skiptir ekki nokkru máli, hver ert þú annars spurði hann, ég sagði þú veist hver ég er, þú skelltir á mig í fyrra, þá geri ég það bara núna líka og þú getur verið Gróa á Leiti eins og Anna Kristjáns, nú sagði ég er hún orðin Gróa á Leiti? já lestu bara það sem hún skrifar sagði karl þá, já sagði ég hvar er hún að skrifa...er hún með heimasíðu eða hvað, já sagði karl þá og spurði hvort að ég vissi hvaða gögn hann væri með á 200 fermetrum, ég sagðist hafa séð myndir frá honum hann væri jú alltaf í fjölmiðlum og flaggaði bókum Þorsteins, þá kvaddi hann.
Skemmtilegt samtal.
Heyrumst
kveðja
hin Gróan”

Ég ætti eiginlega að skammast mín, en ég er svo óskammfeilin að ég kann ekki slíkt, ekki síst í ljósi þess að Oddur Helgason setti mig á listann sinn yfir óvini sína og það gerði hann alveg einn og óstuddur. Hinsvegar getur vel verið að pistill minn frá 12. júní síðastliðnum hafi bætt á fyrirlitningu Odds á hendur mér:

http://velstyran.blogspot.com/2006/06/12-jn-2006-skja-sr-f.html


-----oOo-----

Það er búið að ákveða refsingu mína fyrir lélega frammistöðu í Selvogsgöngunni síðasta sunnudag. Hún felst í því að senda mig öðru sinni þessa sömu leið og skal ég uppfylla skyldu mína eigi síðar en um næstu helgi.

-----oOo-----

Það var slegið nýtt aðsóknarmet á síðunni minni í gær er 386 heimsóknir voru inn á síðuna. Skýringin er einföld. Guðrún Vala var of þreytt til að blogga og setti inn link hjá sér inn á mína síðu svo ég fékk líka hennar heimsóknir.


0 ummæli:







Skrifa ummæli