laugardagur, ágúst 19, 2006

19. ágúst 2006 – Af kristindómi

Það sá einhver ástæðu til að hnýta í mig vegna stutts pistils í gær um kristindóminn. Vegna þess vil ég árétta skoðun mína á kristindómnum og kærleiksboðskap.

Ég get vart sagt að ég hafi lesið mikið í biblíunni frá fermingu fyrir rúmum fjórum áratugum síðan. Það er heldur engin ástæða til þess að vera sífellt að blaðra í biblíunni ef þau skilaboð sem troðið var í mig sem barni náðu að festast í mér og að mér tókst að lifa eftir þeim. Það er þessi barnatrú sem ég bý enn við og mun gera það sem eftir er. Það hefur vissulega margt farið úrskeiðis á langri ævi, en rétt eins og kærleiksboðskapurinn og fyrirgefningin boða, þá get ég iðrast gerða minna og bætt mig. Sömuleiðis ber mér að bæta mig og reyna allt sem mér er unnt til að gera betur.

Ég viðurkenni fúslega að ég hefi löngum þurft að eiga við ýmsa eigin fordóma. Ég bjó mér til fordóma þar sem ég óttaðist að upp um tilfinningar mínar kæmist. Aðra lærði af mér reyndara fólki sem taldi sig vita betur. Í dag veit ég oft betur en ég gerði og ég þarf ekki að mæta í kirkju alla sunnudaga til að hressa upp á trú mína.

Ég hefi ávallt litið á boðorðið gegn morðum eða drápum sem eitt hið mikilvægasta. Það ásamt mörgum öðrum reglum eru það gróin við siðferðiskennd mína, að brot á slíkri reglu er óhugsandi, nema hreinlega í ítrustu sjálfsvörn. Öll morð og dráp stríða gegn réttlætiskennd minni, enda get ég ekki með nokkru móti séð að slíkt athæfi samræmist kærleiksboðskapnum. Sama gildir um dauðarefsingar. Í hvert sinn sem ég heyri einhvern mæla með dauðarefsingu get ég ekki annað en mótmælt. Því miður eru nokkrir aðilar á Íslandi sem telja dauðarefsingu vera eðlilega, þeirra á meðal einn sem haldið hefur uppi vörnum fyrir auglýsingu gegn samkynhneigð sem birtist í Morgunblaðinu fyrir viku síðan. Með slíkri skoðun er sá hinn sami að segja að bókstafurinn gildi, ekki kærleikurinn.

Ég hefi ávallt verið í vafa um einstöku bókstafi í biblíunni. Ég get ekki fest hugann við almættið, eitthvað sem kallað er Guð. Ég sé ekki Guð fyrir mér sem gamlan mann í hvítum kjól og með alskegg. Ég get ekki einu sinni séð Guð sem mann, einungis sem hið góða í okkur öllum. Sömuleiðis hefi ég aldrei botnað í hinni heilögu eimyrju og veit ekkert hvað bíður mín á hinum efsta degi. Ég kvíði litlu eða engu, það væri þá helst sársaukinn, hvort dauðinn verði endanlegur eða eitthvað bíði mín hinum megin grafar.

Ég á þó örfá orð, tekin frá þeim sem þjáðist á krossinum til handa þeim aðilum sem hafa haldið uppi fordómum í garð samkynhneigðra að undanförnu:

Guð, fyrirgefðu þeim, því þeir vita eigi hvað þeir gjöra.


0 ummæli:Skrifa ummæli