sunnudagur, ágúst 13, 2006

13. ágúst 2006 – Brúðkaup og þróunarkenningin


Hún dóttir mín gifti sig í gær. Ég var þar, skemmti mér vel og tók fullt af myndum, en mun ekki setja inn myndir að sinni. Ástæðan er sú að sumum þætti það viðkvæmt að lenda á netinu án sérstakrar heimildar þótt helst vildi ég setja nokkrar valdar myndir öðrum til gleði. Að auki virðist sem “red eye” stillingin hafi verið aftengd og því eru börn jafnt sem fullorðnir með rauð augu á sumum myndanna. Ég verð því að laga sumar myndanna. Ég sendi hinar bestu framtíðaróskir til ferskra brúðhjónanna.

-----oOo-----

Einn góður vinnufélagi minn í Svíþjóð var frá Finnlandi, ákaflega trúaður og var meðlimur í kirkjudeild babtista. Hann var stríðsbarn, þ.e. eitt þeirra mörgu barna sem höfðu verið send í fóstur til Svíþjóðar meðan á vetrarstríðinu stóð sem og eftirhreytum þess og snéru aldrei heim aftur, heldur ólust upp í Svíþjóð við misjafnt atlæti en ákveðið öryggi gagnvart heimsstyrjöldinni síðari. Við ræddum oft saman um lífið og tilveruna og allt milli himins og jarðar, en einhverntímann bárust hlutir í tal sem vörðuðu þróunarkenningu Darwins. Þá snérist Stig til varnar og afneitaði öllu sem hafði að gera með þróun tegundanna. Jörðin væri einungis 6000 ára gömul og við það sat.

Þegar við höfðum unnið saman á vakt í um tvö ár, hætti hann og flutti niður til Småland í hið svokallaða Biblíubelti Svíþjóðar þar sem hann gæti verið örlítið nær Guði sínum. Ég heimsótti hann og konu hans einu sinni eftir það, en skömmu síðar varð hann bráðkvaddur og var jarðaður frá litlu grafarkapellunni örskammt frá staðnum þar sem við höfðum unnið saman í Hässelby.

Þessi afneitun Stigs á þróunarkenningunni rifjaðist upp fyrir mér er ég las ákaflega athyglisverða grein um þróunarkenninguna í Dagens nyheter. Þar kemur fram að að einungis 40% Bandaríkjamanna trúa þróunarkenningunni, en 21% að auki eru í vafa um hvort hún sé rétt. Þetta þýðir í reynd að 39% Bandaríkjamanna afneita þróunarkenningunni.

Í Bandaríkjunum berjast hægrisinnuðu bókstafstrúaröflin fyrir því að sköpunarsaga Biblíunnar verði kennd sem hin eina sanna útskýring á tilvist mannsskepnunnar og að þróunarkenningunni verði afneitað. Þar í landi er ástandið þó ekki verst. Það má benda á að því minni sem þekking almennings er, því verra er ástandið. Þannig afneitar um helmingur Tyrkja tilvist þróunarkenningarinnar, en innan við 10% Íslendinga og Japana. Ástandið í Vestur- og Norður-Evrópu er yfirleitt svipað, þ.e. að um eða yfir 80% fólks trúir þróunarkenningunni og 10-15% fólks afneita henni.

http://www.dn.se/DNet/jsp/polopoly.jsp?d=145&a=564362&previousRenderType=6


0 ummæli:Skrifa ummæli