sunnudagur, júlí 30, 2006

30. júlí 2006 - Af jarðgöngum til Eyja

Eins og þessir fáu sem hafa lesið bloggið mitt að staðaldri vita, þá er ég ákaflega hrifin af gerð jarðganga allsstaðar þar sem þeirra er þörf og finnst hið besta mál að borað sé í gegnum sem flest fjöll og undir firði í þeim tilgangi að stytta vegalengdir á milli byggðarlaga. Ég tel Hvalfjarðargöng vera eina mestu samgöngubót Íslandssögunnar á eftir veginum yfir Skeiðarársand árið 1974 og fagnaði mjög ákvörðun um göng á milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar sem nú eru orðin að veruleika. Svo er um fleiri göng á borð við Vestfjarðagöngin og ekki hefi ég sett mig á móti Héðinsfjarðargöngum þótt þjóðhagslega séu þau dýr fjárfesting.

Ein eru þó þau göngin sem ég er mjög efins um, en það eru göng til Vestmannaeyja. Heyrst hafa kostnaðartölur við gerð þeirra allt frá tuttugu milljörðum til hundrað milljarða og er þá enn ekki útséð um hvort þau séu yfirleitt framkvæmanleg sökum lélegra berglaga.

Þegar Hvalfjarðargöngin voru gerð á árunum 1996-1998, reyndust þau miklu ódýrari en upphaflega var ráðgert vegna heppilegra ytri skilyrða, góðra berglaga og lítils leka úr berginu. Þá tókst að ljúka þeim á styttri tíma en upphaflega var áætlað og öll framkvæmdin tókst betur en nokkur þorði að vona í upphafi. Þó nam kostnaður við göngin rúmlega 800.000 krónum á hvern lengdarmetra ganganna á verðlagi ársins 1996. Ætli megi ekki áætla kostnaðinn rúmlega milljón á metrann á verðlagi dagsins í dag, tíu árum síðar.

Nú birtast skyndilega nýjar kostnaðartölur fyrir göngin til Vestmannaeyja og er kostnaðurinn nú kominn niður að milljóninni á hvern metra í Eyjagöngum. Samkvæmt nýjustu tölum sem Ægisdyr hf hafa birt, kosta 18 kílómetra löng göngin um 1,65 milljarða norskra króna eða 19.4 milljarða íslenskar krónur. Það er nú ánægjulegt að heyra að hriplegt gosbergið og setlögin á miðju eldstöðvasvæðinu er nú orðið sambærilegt að gæðum við bergið sem Hvalfjarðargöngin voru gerð í gegnum.

Einhvernveginn fæ ég það á tilfinninguna að þessar nýju tölur séu hreinn lobbýismi. Ef hægt er að fá ríkissjóð til að leggja fram tuttugu milljarða í gangagerð til Eyja er erfitt að hætta við, þótt langt sé eftir þegar peningarnir verða búnir. Og ekki munu Magnús Kristinsson og Árni Johnsen leggja fram krónu úr eigin vasa til þessarar framkvæmdar þótt hún stöðvist vegna vöntunar á fjármunum sem gætu reyndar í versta tilfelli numið nokkrum tugum milljarða.

Þá líst mér betur á höfn í Bakkafjöru.


0 ummæli:Skrifa ummæli