miðvikudagur, júlí 12, 2006

12. júlí 2006 - Allt á afturfótunum

Ég eyddi gærdeginum í að taka afrit af myndum og gögnum í tölvunni hjá mér áður en ég hreinsa til í henni. Um leið ætlaði ég að taka afrit af öllum þeim myndum sem ég hefi tekið á hinum ýmsu TGEU fundum, en það hefur heldur betur gengið illa. Ég var búin að skrifa heildarafrit á fjölda diska sem ég ætlaði að senda með sniglapósti til hlutaðeigandi, en þegar ég var búin að ljúka verkinu, áttaði ég mig á að ég hafði gert slæm mistök og ekki safnað nema stórum hluta þeirra mynda sem ég ætlaði að senda. Fremur en að senda það sem ég hafði þegar skrifað, henti ég tuttugu diskum í ruslið og skrifaði allt upp á nýtt. Fyrir bragðið er bloggið óskaplega fátæklegt.

Ekki get ég gefið þessa diska. Hver vill svo sem eiga geisladiska af tugum furðufugla af mínu tagi samankomna á fundum eða þá drekkandi öl á vafasömum slóðum í skemmtanahverfum evrópska stórborga. Ekki ég! Ef einhverjir vilja svala forvitni sinni, þá er slíkar myndir að finna í myndaalbúminu mínu undir liðum númer 3.1, 3.2 og 3.3. þar sem nýjustu myndirnar eru samankomnar.

-----oOo-----

Þá er blessaður drengurinn hann Syd Barret farinn yfir móðuna miklu. Hann var vafalaust hinn ágætasti piltur, en mikið skelfing held ég að heimurinn hefði farið margs á mis, ef hann hefði ekki þurft að yfirgefa Pink Floyd á unga aldri. Allavega er ég sannfærð um að Roger Waters hefði aldrei náð eins langt eins og hann gerði ef Syd Barret hefði haldið sönsum. Annars var dálítið forvitnilegt að að heyra Guðna Má og fleiri tönnlast í sífellu á að Syd hefði látist fyrir tveimur dögum þótt þegar hafi dánardagur hans verið kominn á alfræðisafnið Wikipedia sem 7. júlí. “Couple of days ago” getur nefnilega verið dálítið teygjanlegt hugtak þegar ekki er vitað nákvæmlega hvenær þau orð voru sögð.


0 ummæli:Skrifa ummæli