þriðjudagur, júlí 25, 2006

26. júlí 2006 - Riddarar hringvegarins

Haustið 1996 er ég hafði nýlega flust til Íslands aftur skrapp ég nokkrar ferðir á nótaskipinu Jóni Kjartanssyni SU-111 frá Eskifirði. Þótt eldgos í Gjálp væri nýafstaðið og beðið væri flóðbylgju á Skeiðarársandi, fór ég austur á bílnum, enda var margt óvisst með þessar ferðir mínar. Þótt veðrið væri dásamlegt er ég ók meðfram suðurströndinni, breyttist það heldur betur til hins verra þegar austar dró og þurfti ég að fara mjög varlega er ég ók Hvalsnes- og Þvottárskriður, enda þá þegar komin ausandi rigning eins og hún verður verst fyrir austan. Síðan rétt slapp ég yfir hvarf á veginum í Berufirði þar sem vegurinn grófst svo í sundur seinna um kvöldið, en er ég ók Vattarnesskriðurnar kom ég að stórum stein sem fallið hafði mitt á veginn úr skriðunum fyrir ofan. Mér hætti að lítast á þetta. Ég komst þó alla leið til Eskifjarðar á mínum Heimdallarbláa Súbarú og hélt á sjóinn daginn eftir eins og um hafði verið rætt.

Á meðan ég var um borð í skipinu kom flóðið mikla yfir Skeiðarársand og ruddi í burtu vegum og brúm. Þegar afleysningu minni lauk var suðurlandsvegurinn enn lokaður eftir flóðið og þurfti ég að fara norðurleiðina til Reykjavíkur. Það var kominn vetur. Ég var með ónegld heilsársdekk undir bílnum, en kunni annars lítið að aka í snjó og hálku. Á leiðinni kom ég að tveimur flutningabílum sem höfðu farið útaf vegna hálkunnar, hinn fyrri á Jökuldalsheiði, en hinn seinni hafði oltið á leiðinni upp eftir Ljósavatnsskarðinu og voru björgunarsveitir þar við störf við að bjarga dýrmætum farminum úr gámi bílsins.

Ég stoppaði stutta stund hjá vinafólki mínu á Akureyri, en hélt síðan áfram för minni og náði loksins til Reykjavíkur seinnihluta nætur eftir fjórtán stunda ferð.

Þetta rifjaðist upp fyrir mér í gær er ég heyrði af mengunarslysi í Ljósavatnsslysi og þar sem vegurinn var lokaður í margar klukkustundir vegna slyssins. Ég fór að skoða hringveginn á korti. Það er engin varaleið ef Suðurlandsvegurinn lokast af einhverjum ástæðum og gildir það um mestalla leiðina frá Eyjafjöllum og austur til Berufjarðar, einungis hægt að snúa við og fara öfugan hring. Sömu sögu er að segja um Ljósavatnsskarðið og Vaðlaheiðina, sömuleiðis hluta af þjóðveginum í gegnum Húnavatnssýslur. Þá er ég ekki að tala um ófærð vegna vetrar og snjóa, heldur fyrst og fremst náttúruhamfarir eða slys.

Það verður vissulega mikil samgöngubót að Héðinsfjarðargöngum, en betur má ef duga skal. Með hugsanlegum göngum undir Vaðlaheiði og alvörugöng frá Bolungarvík til Ísafjarðar sem og víðar á Vestfjörðum og Austfjörðum má vissulega létta mjög á þessum viðkvæmu þáttum í vegakerfinu. Ekki má heldur gleyma nýjum vegi og göngum undir Lónsheiði. Hvernig best er að leysa önnur vandamál í vegakerfinu skal ósagt látið að sinni, en það er kominn tími til að byrja að gera eitthvað.

Ef ríkisstjórnin þarf að halda niðri vöxtum, væri nær að leggja spítalamonstrið á ís, notast áfram við lágtæknisjúkrahúsin sem fyrir eru og bæta vegakerfið. Ekki veitir af.

-----oOo-----

Ég er ekki með neinar harðsperrur í dag og langar til að labba á eitt eða tvö fjöll. Því miður er ekki á allt kosið því vinnan kallar næstu dagana og verð ég því að labba Elliðaárhringinn daglega næstu kvöld. og svo þarf ég að rölta suður í Kópavog og endurheimta eðalvagninn minn


0 ummæli:







Skrifa ummæli