laugardagur, júlí 29, 2006

29. júlí 2006 - Galdramaðurinn Þórður

Eins og ég nefndi í þriðjudagsbloggi mínu, þá heyrðist ekkert skrölt í mínum vinstrigræna Súbarú þegar Þórður ferðafélagi sat mér við hlið í fjallaferðum okkar. Ég mat þetta sem svo að Þórður væri galdramaður úr því ekkert heyrðist í drifinu þegar hann sat í bílnum.

Í gær rölti ég yfir í Kópavog og endurheimti minn ástkæra vinstrigræna Súbarú úr viðgerð og viti menn. Skröltið var horfið úr bílnum. Er ég spurðist fyrir um bilunina reyndist skröltið koma úr framdrifi hægra megin og var liður á drifinu byrjaður að gefa sig. Þegar hár og myndarlega vaxinn maður á borð við Þórð settist í framsætið hægra megin, kom ný afstaða á drifið og þar með hætti hljóðið að heyrast. Semsagt, það var annað hvort að hafa Þórð alltaf í bílnum eða skipta um hjöruliðinn.

Þótt vissulega væri gott að hafa Þórð alltaf í bílnum, var tekin sú ákvörðun að skipta um hjöruliðinn.

-----oOo-----


Ég þurfti aðeins að skreppa á mínum vinstrigræna eðalvagni áður en ég fór á vaktina, en þegar ég kom heim aftur var þessi glæsivagn búinn að leggja í innkeyrsluna og eins gott að ég var á liprum bíl með alla liði í lagi svo ég slapp framhjá honum. Ég viðurkenni að ég mældi ekki vegalengdina frá bílnum að gatnamótunum, en ég náði í myndavélina og tók mynd af flottheitunum.

-----oOo-----

Þess má loksins geta að ég hefi stækkað margar myndir á myndasíðunum mínum svo auðveldara verði að njóta þeirra.


0 ummæli:Skrifa ummæli