mánudagur, júlí 03, 2006

3. júlí 2006 – Hjá the Hampsons (not the Simpsons)


Það var að sjálfsögðu vaknað eldsnemma á sunnudagsmorguninn, kannski óþarflega snemma, því eftir að hafa drukkið nokkur glös á laugardagskvöldinu, hafði ég gleymt því að ég hafði flýtt klukkunni minni og mætti hálftíma of snemma á framhald miðstjórnarfundarins í TGEU í stað þess að mæta hálftíma of seint. Ýmsar ályktanir voru samþykktar og sömuleiðis var ákvörðun um næsta þing samtakanna frestað þar til séð yrði hvort dönsku samtökin réðu við slíkt verkefni. Næsti fundur var síðan ákveðinn í Tórínó á Ítalíu (heimabæ Ferrari) í nóvember n.k.

Eftir fundinn var sest að snæðingi um stund og kvartað og kveinað yfir 30 °C hita og glaðasólskini áður en fólkið hélt til sína heima. Sjálf hafði ég ákveðið að dvelja hjá ættingjum í nokkra daga og hélt með allt mitt hafurtask út í hið fræga Gay Village og að gatnamótunum á Canal Street og Princess Street þar sem ég beið um stund uns Pétur frændi sótti mig.

Þar sem við héldum frá Manchester og komumst yfir bæjarmörkin til Haywood, datt skyndilega upp úr Pétri:
“The street is wet”
Það var rétt hjá honum. Gatan framundan var blaut eins og að rigningarskúr hefði gengið yfir og vart sást ský á himni. Við héldum áfram í gegnum Haywood og til Rochdale og heim til Péturs. Þar var systkinahópurinn sem allur býr í sama hverfinu samankominn, því nú átti að grilla.

Vart hafði Pétur kveikt upp í grillinu þegar skall á þrumuveður með slíku úrhelli að ég man vart annað eins í Evrópu. Gatan fyrir neðan hjá Pétri varð eins og stórfljót og vatnið náði bílum í bílastæðum uppá miðjar felgur og jafnvel enn ofar. Veðrið gekk yfir á um þremur tímum og vesalings fólkið í húsinu á móti Pétri komst ekki út á meðan til að vatnselgurinn inn í húsið yrði ekki enn verri. Lesley systir og eiginmaður áttu í basli því 20 centímetra hátt vatnsborð var í bílskúrnum hjá þeim sem var yfirfullur af drasli og ljóst að þau höfðu orðið fyrir tilfinnanlegu tjóni. Bæjarkránni var lokað vegna vatnselgs þar inni og síðar fréttum við að nokkrir tugir húsa hefðu verið rýmdir vegna flóða auk þess sem björgunarsveitir fengu mörg hundruð útköll vegna veðursins.

Til að bæta gráu ofan á svart fór rafmagnið skömmu eftir að regninu slotaði og var rafmagnslaust í um þrjá tíma. Þegar haft er í huga að ágætis veður hefur verið á Íslandi um helgina eftir að ég fór og að rigningin byrjaði í Rochdale þegar ég kom þangað, er rætt um það í fúlustu alvöru að banna mér að koma aftur til bæjarins

Verst var þó að netsambandið hjá Pétri bilaði og ég kom engum fréttum út á netið fyrr en núna.

-----oOo-----

Það hefur löngum þótt góður siður hjá sigurvegurum að nudda ekki salti í sárin hjá þeim sem tapaði. Ég ætla því ekkert að tala um Formúla saumavél sem fram fór í Indianapolis á sunnudeginum, en fagna úrslitunum þess betur. Ég sá hvort eð var ekki nema hluta af keppninni vegna látanna í veðrinu.


0 ummæli:







Skrifa ummæli