miðvikudagur, júlí 26, 2006

27. júlí 2006 - Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.

Síðasta mánuðinn hefur miði hangið uppi í strætisvagnabiðskýlinu við Bæjarháls, því sem næst er heimili mínu. Á miðanum hefur verið tilkynning þess efnis að stofnleið S5 væri lögð niður þar til í ágúst vegna sumarleyfa. Ekki vil ég koma í veg fyrir sumarleyfi strætisvagnsstjóra með nöldri mínu þótt ég hefði fremur kosið að einhver önnur leið yrði lögð af meðan á sumarleyfi stendur en einmitt hraðferðin heiman frá mér og til miðborgarinnar, t.d. leið 1 Njálsgata-Gunnarsbraut eða leið 13 Kleppur hraðferð.

Í gærmorgun er ég var á leið til vinnu, varð ég fyrir miklu áfalli. Ég veitti því nefnilega athygli að miðinn góði var horfinn. Það var ekkert sem minnti lengur á þann dag sem strætisvagnaleið númer S5 hefur göngu sína að nýju eftir sumarleyfi strætisvagnsstjórans. Ekki bara það, heldur var glugginn á gafli biðskýlisins þar sem miðinn hafði verið límdur, horfinn líka. Þetta þótti mér hið versta mál, enda var biðskýlið horfið og hið einasta sem minnti á nýfengna frægð þess var útsléttuð malarhrúga.

Það setti ákafa sorg að mér því enginn veit hvað átt hefur, fyrr en misst hefur. Að hugsa sér öll tækifærin sem ég hefi misst af því að ferðast með stofnleið S5. Sjálf hefi ég einungis einu sinni orðið svo fræg að setja í Árbæjarstrætó, enda hefi ég búið í Árbænum í minna en tvö ár, bý í sex mínútna göngufæri frá vinnunni og tíu mínútna gang í Heiðrúnu. Einasta skiptið sem ég notaði vagninn góða, var þegar ég þurfti að sækja bílinn niður í bæ eftir að hafa fengið mér öl á kránni kvöldið áður, enda veit ég enga almennilega krá hér í hverfinu og flestar þær góðu í námunda við Ingólfsstræti.

Ég hefði örugglega farið oftar með stofnleið 5 hefði ég lent oftar í því að drekka öl í miðborginni, frekar en að gera eins og fyrrum borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sem ólst upp í Árbænum og réðist á ljósastaur eftir öldrykkju skömmu fyrir kosningar.


0 ummæli:







Skrifa ummæli