sunnudagur, júlí 23, 2006

23. júlí 2006 - Hverju reiddist Gilitrutt?


Um hádegi á laugardegi var kominn tími á nýja fjallgöngu því nú skyldi Hengillinn klifinn og tækifærið notað og heilsað upp á jólasveininn Giljagaur og hann áminntur um góðar gjafir í skóinn um næstu jól. Guðrún Helga komst ekki með og því fór ég ásamt ferðafélaga einum sem óþarfi er að nefna, en við skulum kalla hann Þórð. Þórður þessi er hár maður vexti, ljóshærður og þrekinn, semsagt óskaprins allra ungra meyja.

Við héldum úr Árbænum á mínum vinstrigræna Súbarú og héldum austur, framhjá Hellisheiðarvirkjun og að skíðaskála þeim við Kolviðarhól sem kenndur er við Víking. Þar var bílnum lagt og haldið áfram fótgangandi og klifrandi og gekk ferðin vel framanaf. Við fórum framhjá Sleggju og upp á Húsmúlann, fikruðum okkur eftir einstigi í átt að Henglinum og Þórður kallaði reglulega í Giljagaur vitandi að hann var þarna einhversstaðar.

Er við komum að heilmikilli klettaborg sem mig grunar að sé kennd við Sleggjubeinsskarð, birtist sambýliskona Giljagaurs, hún Gilitrutt, þreif í Þórð og vildi fá hann til eignar. Hann vildi hinsvegar ekkert með hana hafa og bara ræða málin við Giljagaur undir fjögur augu um hvað væri hæfilegt í skóinn fyrir næstu jól. Þá reiddist Gilitrutt og hrinti Þórði útaf einstiginu sem hann hafði verið að fikra sig eftir svo hann rann á rassinum á fullri ferð niður í grjóturðina fyrir neðan. Ég var komin yfir, þakkaði almættinu fyrir að Gilitrutt ýtti ekki Þórði niður vestanverðunni þar sem voru hundruð metra niður á fastlendi, en gat ekkert frekar gert Þórði til bjargar, greip í farsímann og reyndi að hringja í Pollý-Gunnu sem hafði áður lofað að hafa tilbúnar þrjár þyrlur til björgunar Þórði. Það reyndist rangt. Það var alltaf á tali hjá Pollý-Gunnu og þarna lá vesalings Þórður í urðinni.

Úr því ég gat ekkert gert frekar Þórði til hjálpar, hélt ég för minni áfram í átt að sjálfum Henglinum, hágrátandi og vissi vart mitt rjúkandi ráð. Það var fremur einmanaleg ganga og erfið enda er ég enn með gamlar harðsperrur sem ekkert virðast lagast og því ákvað ég að snúa við er ég kom að síðasta áfanganum upp á sjálfan Skeggja og hélt eftir ómerktu skarði sem ég sá í átt að Innstadal. Ekkert hafði ég í höndunum sem gat sagt mér réttu leiðina því Þórður tók öll kort og gépéessa með sér í fallinu. Ég fann þarna ágætis einstigi sem ég taldi mér óhætt að fikra mig eftir, en eftir allnokkra stund við sífellt verri aðstæður fór ég að skoða sporin sem voru í þessu einstigi og reyndust þau öll vera eftir kindur. Einhvernveginn tókst mér að mjaka mér úr þessum aðstæðum, illa lyktandi rauðar ár og annan ósóma uns ég komst í Innstadal.

Úr litlu gili undir Sleggjubeinsskarði veitti ég athygli reyk. Ahaa, útilegumenn á ferð hugsaði ég með mér og er ég nálgaðist, reyndist Landroverjeppi staðsettur við gilið. Ekki þorði ég að hóa hátt af ótta við að útilegumennirnir yrðu varir við mig og læddist síðustu metrana að fólkinu sem gat hugsanlega verið að grilla nýveitt lambakjöt.

Það varð mikill léttir er ég loksins sá fólkið, einn jarðfræðinganna hjá Orkuveitunni var ásamt frú sinni að grilla vel fengið lambakjöt úr Nóatúni og þarna sat Þórður í góðu yfirlæti og reyndi að éta björgunarfólk sitt út á gaddinn. Ég þakkaði Gretari og Önnu Dís kærlega fyrir veitta björgun og dró Þórð frá grillinu og áleiðis niður að Víkingsskála og í minn vinstrigræna Súbarú sem hafði beðið þolinmóður eftir okkur í sex klukkutíma og héldum við síðan til Reykjavíkur eftir að hafa skoðað aðeins virkjunarsvæðið.

Merkilegt hvað starfsfólk Orkuveitunnar hefur gaman af að vera í vinnunni í frítímanum sbr. Gretar sem er á Hengilssvæðinu alla daga í vinnutímanum og fer svo í útilegu á Hengilssvæðið um helgar.

Auðvitað voru teknar myndir og sjást þær í myndaalbúmi merktar 2.4.4. Hengill 22. júlí 2006


0 ummæli:Skrifa ummæli