laugardagur, júlí 01, 2006

1. júlí 2006 - Í Mannshestahreppi

Föstudagurinn var erfiður. Hann byrjaði með því að ég var á næturvakt. Það kemur ekki til mála að ég viðurkenni að hafa sofið einn tíma eða tvo á vaktinni, en um miðja nótt var rafmagnið tekið af Lögbergslínu og með henni lokahúsinu á Reynisvatnsheiði. Þar með var öllum möguleikum á að loka öðru auganu á næturvaktinni lokið.

Ég var ósofin þegar ég hélt heim eftir vaktina og erfiður dagur framundan. Ég þurfti að sjá um tvær kisur, þvo og strauja og pakka og fara í bankann og kaupa gjaldeyri og ósofin hélt ég á Miðnesheiðarflugvöll þegar klukkan var að verða þrjú með hjálp Dagbjartar vinkonu minnar. Á flugellinum sá ég Ragnheiði Hrefnudóttur álengdar en þorði ekki að gefa mig á tal við hana. Hún er á leið til Kanada í verkefnið “Snorri West” og á allar mínar hvatningarkveðjur í huganum.

Mín vél fór í hina áttina, til Mannshestaborgar í Bretaveldi, ekki langt frá Halifaxhreppi sem er orðinn mér svo kær. Flugfreyjurnar vöktu mig ekki á leiðinni, en voru ósköp indælar, reyndu ekki einu sinni að pranga inn á mig vörum sem ég hefi ekkert að gera við, en sáu til þess að ég yrði ekki hungurmorða á leiðinni.

Eftir vel heppnaða lendingu í Mannshestahreppi tók við passaskoðun. Það var martröð. Ekki vegna þess að neitt væri að, en að byrja í röð í öðrum sal við vegabréfaskoðun er ekki þægilegt og svo leið meira en hálftími áður en ég komst í gegn. Þá var að sækja töskur og svo eins hratt og hægt var út úr kvalræðinu.

Fyrir utan biðu Pétur frændi og Margaretha eiginkona hans eftir mér og við fundum leiðina á hótelið sem ég ætla að gista á, meðan á fundi TGEU stendur. Eftir að hafa bókað mig inn á hótelið, fórum við upp á Canal Street, líflegustu götuna í Mannshestahreppi, þar sem við hittum restina af miðstjórn TGEU og varð þar fagnaðarfundur.

Eftir að hafa skipst á myndum og kveðjum og skálað í öli var haldið aftur á hótelið og sé ég fram á skemmtilega daga í þessari merkisborg, en mér hefur verið lofað kynnisferð um Halifaxhrepp og Mannshestahrepp auk Reykholtsdalsins sjálfs sem Gísli Einarsson kallar Rochdale í Lancasterskíri.

Engar nýjar myndir fyrr en ég hefi lært á nýju myndavélina sem ég keypti í Fríhöfninni.


0 ummæli:







Skrifa ummæli