mánudagur, júlí 17, 2006

17. júlí 2006 - Átök fyrir botni Miðjarðarhafs


Aðalfréttin á textaræmu NFS sunnudaginn 16. júlí 2006:

“Að minnsta kosti níu Ísraelar létust í sprengjuárás Hespollah-samtakanna á lestarstöð í Haifa í morgun.”

Eins og sjá má, er þetta frétt sem er samin í Ísrael. Hvergi var minnst á fjölda Líbana sem féllu í loftárásum Ísraels á Beirút. Það hefur enginn áhuga fyrir afdrifum araba, hvorki Palestínumanna né Líbana. Íslenskar fréttastofur, sérstaklega hinar svokölluðu frjálsu fréttastofur, eru ekkert betri en þær bandarísku. Þær túlka bara fréttir sigurvegaranna. Í fréttum ríkisútvarpsins mátti þó heyra að nærri fjórir tugir Líbana hefðu fallið í árásum Ísraela í kjölfar árásarinnar á Haifa. Hvað hafa þá margir fallið samanlagt í þessu árásarstríði Ísraels á hendur nágrönnum sínum?

Þegar haft er í huga að stríðið byrjaði vegna tveggja manna sem voru í fullu starfi sem byssufóður, þá spyr maður þess hvaða líkindi eru á milli þessa stríðs og annars þar sem pólskir landamæraverðir voru taldir hafa ráðist á granna sína í ágústlok árið 1939.

-----oOo-----

Mér finnst það flott hvernig Valgerður Sverrisdóttir tók á málunum þegar Norðmenn vildu ekki lofa Íslendingum að fara með sér til Damaskus frá Líbanon. Afstaða Norðmanna er skiljanleg í ljósi þess að þeir eru að verja sína hagsmuni og norskra ríkisborgara, ekki íslenskra. Það hefði sennilega allt orðið vitlaust í Noregi hefðu Norðmenn boðið Íslendingum að fara á undan í flugvél sem er að sækja Norðmenn.

Til að höggva á hnútinn leigði utanríkisráðuneytið flugvél til að fara til Damaskus og sækja þessa sex íslensku strandaglópa og bauð öðrum Norðulandabúum að fylla vélina með Íslendingunum. Þetta er vissulega dýrt ævintýri, en öðru eins hefur verið tjaldað til að koma fólki í öruggt skjól, auk þess sem þetta er snilld að snúa við málunum sér í hag. Í stað þess að verða skuldbundnir Norðmönnum, fá aðrir að njóta gestrisni ríkisstjórnar Íslands.

-----oOo-----

Hún Tárhildur kisa hefur verið lasin að undanförnu, étið illa og verið aum og vesældarleg. Á laugardagskvöldið tók hún upp á því að byrja að æla hér og þar, svo mjög að mér hætti að standa á sama. Áður en ég fór á vaktina á sunnudagsmorguninn þurfti ég að byrja á að þrífa upp nokkrar ælur eftir kisuna sem hún hafði skilið eftir sig um nóttina. Þá var hún óttalega vesældarleg og ég vissi ekki mitt rjúkandi ráð, hvað ég gæti gert í málinu.

Að reyna að fá einhvern til að leysa sig af á vaktinni á sunnudegi er nánast vonlaust. Því reyndi ég hvað ég gat að fá einhvern til að kíkja heim og á kisuna. Ekkert gekk og þegar vaktinni loksins lauk flýtti ég mér heim og bjóst við hinu versta. Það varð þess ánægjulegra að mæta tveimur glorhungruðum kisum kvartandi og kveinandi yfir lélegu atlæti þegar heim var komið. Tárhildur er að vísu enn óttalega horuð og vesældarleg eftir lasleika síðustu daganna, en allt horfir til betri vegar. Ég hafði ekki ekki bara skilið eftir of lítið handa tveimur kisum í svanginn, heldur hafði ég og gleymt að kveikja á útvarpi og sjónvarpi og þannig tekist að hafa af þeim þá ánægju að sjá heimsmethafann geðþekka bæta heimsmet sín í Formúlu saumavél. Skamm ég.


0 ummæli:







Skrifa ummæli