þriðjudagur, júlí 04, 2006

4. júlí 2006 – Laus við Bush

Áður en ég hélt að heiman bárust þær fregnir til Íslands, að George gamli Bush ætlaði að koma til Íslands og myrða laxa með Orra vini sínum Vigfússyni. Eins og allir vita sem lesa bloggið mitt, flúði ég af landi brott á meðan og færði enskum rigningu ofan í hitabylgjuna sem hefur gengið um England að undanförnu. Nú er í alvöru rætt um að senda mig eitthvert þangað sem rigning hefur ekki komið í hundrað ár í þeirri von að koma mín þangað geti valdið því að eyðimerkur fái nýtt líf. Helst er rætt um að senda mig til Súdan eða Eþíópíu í von um að hægt sé að græða á óheillakrákunni mér. Ég er þó ekki jafnviss og tel þessa rigningu vera heillamerki.

Af rigningu sunnudagskvöldsins er það að frétta að útköllin voru um 630 á einum klukkutíma. Fólkið í húsinu á móti Pétri frænda er ekki í þeim hópi, því síminn bilaði á meðan og enn er lélegt samband gegnum farsíma auk þess sem næsta útsendingarmastur BBC varð fyrir eldingu og er enn óvirkt. Vesalings fólkið þurfti því að treysta á Guð og lukkuna og bíða af sér rigninguna og ausa íbúðina sína um leið og rigningunni slotaði.

Mánudeginum var eytt í lítilsháttar verslunarferð í miðbæ Rochdale auk þess sem heimili gamla Peters og Bínu var skoðað, svæðið umhverfis heimili þeirra sem nú er í eigu yngsta sonar þeirra sem og næstum fjögur hundruð ára hús í eigu hans sem hann hefur dundað sér við að endurbyggja á undanförnum árum. Palli (Benedikt Paul Hampson) færði húsið til um tvo metra um leið og hann endurbyggði það, stein fyrir stein. Þetta er algjört þrekvirki sem hann hefur framkvæmt á þessum stað.

Í dag þriðjudag, ætla Sonja og Lesley að sýna mér ýmislegt það sem Mannshestaborg hefur að bjóða, en ég ætla að þakka þeim hjartanlega með því að sýna þeim lífið í Gay Village. Hin opinbera heimsókn til Halifaxhrepps verður að bíða þar til á miðvikudag. Lúðrasveitin klikkaði á þjóðsöngnum og fór illa með Eldgamla Ísafold auk þess sem rauði dregillinn var enn í hreinsuninni.

Myndir koma seinna.


0 ummæli:







Skrifa ummæli