föstudagur, júní 30, 2006

30. júní 2006 - Mengunarslys í uppsiglingu?

Síðastliðið mánudagskvöld var sagt frá því í seinni fréttum Ríkissjónvarpsins að Orkuveita Reykjavíkur hefði lagst gegn því að Atlantsolía fengi að reisa bensínstöð á gatnamótum Suðurlandsbrautar og Kringlumýrarbrautar. Þetta fannst forráðamönnum Atlantsolíu hið versta mál og bentu á bensínstöðvar Shell og ÓB (Olís) sem báðar liggja nærri heitavatnsborholum Orkuveitunnar.

Ég viðurkenni fúslega að ég hafði aldrei hugleitt þann skaða sem gæti orðið á þessum stað ef yrði alvarlegt mengunarslys. Þarna eru nokkrar mjög góðar og virkar heitavatnsborholur sem dæla allt að milljarði í verðmætum árlega upp úr jörðinni til hagsbóta fyrir íbúana. Þetta er sama neðanjarðarkerfið og hefur gefið Reykvíkingum heitt vatn í meira en þúsund ár og ein lek bensínstöð getur eyðilagt þessi verðmæti fyrir okkur til framtíðar.

Lítum aðeins á kalda vatnið. Vatnsból Reykvíkinga eru afgirt, svo rækilega að vatnsverndarsvæðin ná langt út fyrir þau svæði þaðan sem kalda neysluvatninu er dælt upp úr jörðinni. Þangað fá engar bifreiðar að koma nema þær hafi fyrst verið mengunarskoðaðar og allir efna- og olíuflutningar eru bannaðir á svæðinu. Að sjálfsögðu eru engar bensínstöðvar þar í næsta nágrenni þótt vissulega fari olíuflutningar um Suðurlandsveginn sem liggur óþarflega nærri vatnsverndarsvæðunum.

Þegar kemur að heita vatninu er allt önnur saga í gangi. Bensínstöð ÓB við Háaleitisbraut er einungis í 50 metra fjarlægð frá borholu 19 hinum megin við götuna, borholu sem gefur af sér yfir 30 sekúndulítra af 130°C heitu vatni. Bensínstöð og smurstöð Shell við Laugaveg 180 nær að lóðarmörkum að borholu 20 sem gefur af sér 50 sekúndulítra af 129°C heitu vatni. Bílaverkstæði Heklu er svo rétt við borholu 9 sem gefur af sér um 30 sekúndulítra af 128°C vatni og er borholuhúsið á miðju bílasölustæðinu fyrir notaðar bifreiðar. Nánast í miðju þessa viðkvæma svæðis eru svo gatnamót Kringlumýrarbrautar og Laugavegar/Suðurlandsbrautar. Þá má ekki gleyma bensínstöðvum allt umhverfis Laugardalinn, við Sæbraut, Suðurlandsbraut, Borgartún, allt stöðvar sem eru nærri hættumörkum hvað snertir hugsanleg mengunarslys. En fyrst og fremst þarf að hugsa um næstu bensínstöðvar og aðra mengunarvalda í nágrenninu.

Þótt borgarstjórn eigi eftir að segja sitt síðasta orð, hefur Orkuveitan mælt gegn einni bensínstöð til viðbótar á viðkvæmasta hluta þessa viðkvæma svæðis og er það vel. Nú þarf bara að losna við hinar tvær stöðvarnar sem fyrst af svæðinu áður en þær valda varanlegu tjóni til framtíðar.

-----oOo-----

Ég verð fjarri góðu gamni næstu vikuna, en mun reyna að setja inn pistla eftir mætti, komist ég í færi við netið.


0 ummæli:







Skrifa ummæli