föstudagur, júní 09, 2006

9. júní 2006 - Pétur frændi

Pétur Þorbjörnsson móðurbróðir minn dó í gær 83 ára gamall. Hann var fæddur á Lokastíg 28 í Reykjavík 25. október 1922, næstelst barna afa míns og ömmu, elsti bróðir móður minnar og eyddi ævinni á sjónum. Hann var lengi stýrimaður og skipstjóri á togurum, var skipstjóri á b.v. Pétri Halldórssyni RE-207 í Nýfundnalandsveðrinu 1959 þar sem skip og áhöfn voru hætt komin, en tókst að komast heim með laskað skip en heila áhöfn og er sú lífsreynsla hans skráð í bækur af þessu hræðilega veðri þar sem einn bræðra hans fórst með bv. Júlí GK-21.

Hann var síðan skipstjóri á b.v. Pétur Halldórssyni RE-207, Jóni Þorlákssyni RE-204 og Þorkeli mána RE-205, en 1969 fór hann í land og gerðist verkstjóri við fiskiðjuver Bæjarútgerðar Reykjavíkur. Það fannst honum lítt spennandi og ekki leið langur tími uns hann fór aftur til sjós, þá á tvö skip með nafninu Freyja RE-38. Hið seinna var skuttogari sem síðar var keypt af Bæjarútgerð Reykjavíkur, síðar Granda hf. og fékk þá nafnið Hjörleifur RE-211.

Ekki man ég hvenær Pétur fór í land og gerðist uppboðshaldari hjá Faxamarkaðinum hf, en þar eyddi hann síðustu árum starfsævinnar. Hinsvegar átti hann sinn þátt í að koma mörgum börnum systkina sinna til manns með því að taka þau að sér er þau voru komin yfir fermingu og talin fær um að vinna fyrir sér. Þannig hóf ég sjómennsku mína hjá Pétri á bv. Jóni Þorlákssyni RE-204 vorið 1966 og sigldi með honum á þremur skipum, Jóni Þorlákssyni, Þorkeli mána RE-205 og Freyju RE-38. Einnig sigldi ég um fimm ára skeið með syni hans á bv.Vestmannaey VE-54.

Eiginkona Péturs, Sigríður Eyjólfsdóttir frá Laugardal í Vestmannaeyjum, lést haustið 1994.

Það gefur auga leið að Pétur átti mikið í mér. Mér þótti virkilega mikið vænt um hann og ég held að það hafi verið gagnkvæmt. Hann var hetjan í fjölskyldunni og hann var sá sem við litum öll upp til. Mig langar til að votta fjölskyldu hans mínar dýpstu samúðarkveðjur.


0 ummæli:







Skrifa ummæli