fimmtudagur, júní 22, 2006

22. júní 2006 - 40 ár

Ég man það eins og að það hefði skeð í gær. 22. júní 1966. Ég hafði suðað í móðurbróður mínum sem nú er nýlátinn að lofa mér að fara nokkrar ferðir á togaranum hans. Að lokum gafst hann upp á þrjóskunni í mér og samþykkti að ég fengi að fara eina ferð sem hálfdrættingur um borð í togarann Jón Þorlákson RE-204. Þetta var gamall síðutogari, smíðaður 1949 og í eigu Bæjarútgerðar Reykjavíkur. Ég var ekki langyngsti hásetinn í flotanum. Einn bekkjarbróðir minn var háseti á Ingólfi Arnarsyni þar sem faðir hans var skipstjóri. Að fara á togara einungis 14 ára að aldri var talið hraustleikamerki.

Kvöldið áður en lagt var úr höfn tók pabbi mig á eintal. Passaðu þig á hinu og passaðu þig á þessu, strákarnir munu efalaust reyna að gera grín að þér. Það gera þeir við alla sem eru að byrja til sjós svo þú verður að sjá við þeim. Mundu ef þú finnur fyrir sjóveiki á útstíminu, að fara þá í koju og liggja í hnipri. Þá verður sjóveikin vægari. Ég sagði já og amen við öllu og flýtti mér niður í bæ þar sem lögreglukórar allra Norðurlandanna skemmtu borgarbúum með kórsöng í blíðskaparveðri.

Ég leit á fermingarúrið mitt þegar endum var sleppt og bakkað frá togarabryggjunni, Faxagarði. Hún var 14.15 þann 22. júní 1966 og svo var haldið til veiða. Þetta var góður túr. Við fylltum skipið og komum í land með nærri 300 tonn af blönduðum fiski eftir tæpar tvær vikur á sjó og það var blíðskaparveður allan túrinn. Ekki tókst skipsfélögunum að plata mig til að gefa kjölsvíninu né að trekkja upp togklukkuna. Ég hafði verið vöruð við slíku af pabba. Þegar þeir fóru að tala um að póstbáturinn kæmi á morgun með nýjustu blöðin hló ég bara. Tveimur dögum áður en haldið var í land og menn höfðu haldið áfram að tala um póstbátinn, vaknaði ég eftir frívaktina og þegar ég kom afturí messa, voru menn að lesa nýjustu blöðin. Hafði þá sagan um póstbátinn verið sönn eftir allt saman? Svo kom sannleikurinn í ljós, því skipverji á skipi sem var nýkomið á miðin, hafði veikst og komið yfir til okkar sem vorum rétt að ljúka ferðinni og halda í land og tók nýjustu blöðin með sér.

Ég var til sjós í rúmlega tvo áratugi eftir þetta, lengst af í vélarúmi sem vélstjóri um borð og á nokkrum skipum sem yfirvélstjóri. Ég hætti til sjós í föstu starfi eftir að hafa lent í vinnuslysi um borð í M.s. Álafossi í ágúst 1987 og flaug þá heim frá Hamborg. Síðan þetta var hefi ég einungis verið á sjó í afleysningum og oft frekar sjálfri mér til gamans eða tekjuauka, því ég get ekki hugsað mér sjómennsku sem ævistarfs, en mikið skelfing lærði ég mikið á lífið á þessum rúmlega tveimur áratugum sem ég var á sjó samtímis því sem ég var að berjast við mínar eigin tilfinningar sem eru auðvitað allt önnur saga og er ekki rakin hér í fáeinum orðum.

Ég fann enga mynd af fyrsta skipinu, en fann hinsvegar mynd af systurskipinu, Hallveigu Fróðadóttur RE-203. Hún verður að nægja að sinni. Fyrirgefðu mér Hafdís mín.


0 ummæli:Skrifa ummæli