sunnudagur, júní 11, 2006

11. júní 2006 - Enn af Framsókn

Ég veit að flest ykkar eru búin að fá upp í kok af ástríðuþrungnum frásögnum mínum af Framsóknarflokknum síðustu vikurnar, en ég er samt ekki hætt því Framsóknarflokkurinn veit að illt umtal er betra en ekkert umtal.

Í gær var skipt um nokkra ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Eins og búast mátti við fékk fjarskyldur ættingi minn feitasta embætti Framsóknarmannanna og yfirgaf þar með erfiðasta ráðuneytið. Þá lentu forvígismenn flokksins í vandræðum, því þeir áttu ekki til neitt fólk til að gegna veigameiri embættum. Ekki var hægt að kalla í krakkana í norðausturkjördæmi þau Dagný og Birki Jón. Ekki var heldur talið óhætt að setja hjartveikan Hjálmar í embættið og Kristinn H. Gunnarsson fær ekki ráðherraembætti. Því sló Halldór tvær flugur í einu höggi, tók flokksbróður sinn úr Seðlabankanum og gerði að ráðherra og losaði um stöðu fyrir sjálfan sig í leiðinni.

Skyndilega er Valgerður Sverrisdóttir orðin valdamesti Framsóknarmaðurinn. Ég er hinsvegar ekki viss um að hún verði formaður flokksins eftir landsfundinn í ágúst. Þótt hún sé hæfasti ráðherrann, hefur hún ekki gegnt neitt vinsælu embætti og það getur komið henni í koll þegar á reynir. Finnur Ingólfsson gegndi þessu embætti á undan henni og er hann enn talinn illræmdur af ýmsum andstæðingum iðnaðaruppbyggingar á Íslandi. Því mun hvorugt þeirra auka flokknum fylgi verði þau kosin í feit embætti í flokknum.

Það þarf kannski engan nýjan formann. Eðlilegast verður að leggja flokkinn niður eftir næstu kosningar og láta eigur og atkvæði hans renna óskipt til Sjálfstæðisflokksins þar sem þau eiga heima. Þá hætta íslenskir hægrimenn að berjast eins og forljótur tvíhöfða þurs.

-----oOo-----

Um leið og ég vil óska íslenskum sjómönnum til hamingju með daginn, þá vil ég lýsa furðu minni á því af hverju Geir Haarde notaði ekki tækifærið til að losa sig við óvinsælasta ráðherrann sinn úr því hann þurfti að fækka um einn ráðherra. Sturla Böðvarsson hefur sýnt af sér furðulega vanhæfni í starfi sem samgönguráðherra t.d. með því að útrýma íslenskri farmannastétt og brottrekstur hans hefði glatt hjarta margra sjómanna sem eiga um sárt að binda eftir margra ára aðgerðarleysi ráðherrans.


0 ummæli:







Skrifa ummæli