föstudagur, júní 16, 2006

17. júní 2006 - Heiðarleikinn uppmálaður?

Fyrir nokkrum árum bauðst mér að kaupa örlítinn hlut í nýstofnuðu netfyrirtæki sem gaf góðar vonir um framtíðarávöxt, enda ný tækni lögð til grundvallar stofnun fyrirtækisins. Ég sló til og eignaðist þennan hlut sem mér bauðst á þreföldu nafnverði. Ekki versnaði útlitið fyrst eftir þetta og bréfin ruku upp í verði á gráa markaðnum. Þegar ég hafði átt þennan hlut í örfáa mánuði var haft samband við mig og óþekktur aðili óskaði þess að kaupa bréfið mitt. Ég var hæstánægð með tilboðið sem maðurinn gerði mér og seldi bréfið með hraði, mætti síðan í bankann daginn eftir, undirritaði afsal af bréfinu og fékk það greitt á fjórföldu því verði sem ég hafði keypt það tæpum fjórum mánuðum áður, þ.e. á genginu 12. Aldrei sá ég þó kaupanda hlutabréfsins og veit ekki enn hver hann er.

Mikill og neikvæður opinber áróður gegn þessu ágæta fyrirtæki var þá þegar í fullum gangi og illa gekk að komast gegnum ýmsa byrjunarörðugleika, oft vegna glataðra viðskiptatækifæra sem stöfuðu af hinum neikvæða áróðri. Smám saman dró af því máttinn og á síðasta hausti lagði það upp laupana og rann inn í Og Vodafón, en þeir aðilar sem enn áttu hlut í því fengu hluti sína greidda út á einföldu nafnverði og töpuðu því umtalsverðum peningum frá því sem þeir höfðu keypt bréfin.

Á hverju skattframtali eftir þetta, þurfti ég að taka fram að ég ætti ekki hlutabréfið sem enn var skráð á mínu nafni hjá hinu opinbera þótt ég hefði afsalað mér eignarrétti á því löngu áður. Þegar fyrirtækið var svo lagt niður fékk ég tilkynningu þess efnis frá Og Vodafón, en ég tilkynnti þeim hið sama og skattinum, að ég ætti ekkert bréf lengur í umræddu fyrirtæki. Ekkert gekk og einn góðan veðurdag var búinn til nýr innlánsreikningur á mínu nafni í banka með einföldu nafnverði bréfanna sem ég hafði átt. Þrátt fyrir eilífðar blankheit, er þessi innlánsreikningur enn óhreyfður á mínu nafni, því ekki get ég farið að taka út þessa peninga ef réttur eigandi peninganna gefur sig fram sex árum eftir að hann hafði keypt af mér hlutinn. Svona er ég hræðilega heiðarleg.

Þetta rifjaðist upp fyrir mér á föstudag þar sem ég var á vaktinni. Ég fór að athuga tölvupóstinn minn og sá að það hafði komið bréf til mín frá einum yfirmanni á efstu hæðum. Þegar ég opnaði bréfið sá ég að það var stílað á forstjórann, þrjá af fjórum framkvæmdastjórum, lögfræðinginn og mig og virtist innihalda viðkvæmt skjal.

Ég horfði lengi á bréfið í tölvunni og velti fyrir mér hvort ég ætti að opna fylgiskjalið. Það var freistandi, en um leið gerði ég mér grein fyrir því að sendandinn hafði farið mannavillt og að mér hafði verið sent bréf sem var ætlað fjórða framkvæmdastjóranum sem er nafna mín. Tveir andar sátu á sitthvorri öxlinni á mér, engill á vinstri öxlinni á mér, örvhentri manneskjunni og ljótur púki á þeirri hægri og forvitnin kvaldi mig. Á ég að opna fylgiskjalið? Það gæti verið eitthvað viðkvæmt með upplýsingum sem gott væri að vita, en það væri þó alls ekki víst. Það gæti auðvitað líka verið 17. júní kveðja á milli fólks á sjöttu hæðinni þótt nafn skjalsins benti frekar til þess að það væri viðkvæmt. Það gat einnig verið sent “óvart” til mín til að kanna viðbrögðin. Eftir allnokkra umhugsun ákvað ég að gerast heiðarleg, endursendi það til sendandans með athugasemdum þess efnis að ég hefði ekki opnað viðhengið og ætlaði að eyða því, enda gæti það ekki verið til mín aumrar vélstýrunnar og síðan eyddi ég því ásamt fylgiskjalinu úr tölvunni.

Núna nagar mig samviska heiðarleikans um leið og ég og kisurnar mínar óskum öllum gleðilegrar þjóðhátíðar.


0 ummæli:







Skrifa ummæli