miðvikudagur, júní 28, 2006

28. júní 2006 - Mengunarslys og dramatík

Ég var á vaktinni á þriðjudaginn og sjónvarpið var í gangi inni í setustofu vaktarinnar þegar ungur reyðfirskur fréttamaður hóf að segja frá mengunarslysi á Eskifirði og af áherslum fréttamannsins fékk ég á tilfinninguna að Eskifjörður hefði þurrkast út af kortinu með manni og mús. Eftir að hafa hlustað á manninn góða stund, hafði ég gert mér nokkurn veginn grein fyrir því að drengurinn væri að yfirdramatísera atburðina, slökkti á NFS og kveikti á útvarpinu, enda stutt í áreiðanlegri fréttir en þær sem CNN-Helgi lýsti.

Með fullri virðingu fyrir fréttamönnum, þá þjónaði hegðun þessa unga manns engum tilgangi. Hann var greinilega í mikilli geðshræringu og vafalaust þekkt marga af krökkunum sem lentu í þessari gaseitrun sem sum hver eru kannski leikfélagar hans. Hið einasta sem hann áorkaði var að skapa hræðslu fyrir það fólk sem á ættingja á Austfjörðum. Það fór líka betur en á horfðist og eftirá minnist maður helst þeirra sem þjást af athyglissýki eins og slökkviliðsstjórans á Akureyri og heilbrigðisráðherrans. Það vantaði eiginlega bara menntamálaráðherrann til að þrenningin yrði fullkomin.

Sjálf á ég tvær ungar frænkur sem urðu fyrir þessari eitrun, en þar fór vel þótt þær liggi á sjúkrahúsi til eftirlits er þessi orð eru rituð.

Ég minnist annars atviks frá því ég var til sjós. Við vorum á leið til Íslands á honum Álafossi þegar skipið fékk brotsjó á sig og átta gámar í tveimur röðum slitnuðu úr festingunum og fóru í sjóinn. Þriðja röðin fór á hliðina og efnatunnur sem voru í opnum gám fóru af stað, duttu niður á þilfarið og eyðilögðust. Efnin sem voru í tunnunum láku um allt dekkið og blönduðust sjó, láku að nokkru leyti niður um samskeyti á gámalyftu og komust þar niður í trailerlest skipsins og gaus þar upp hinn megnast óþefur.

Á þessu frambyggða skipi var leiðin frá íbúðunum og afturí vélarúm í gegnum trailerlestina. Þessa tæplega tvo daga sem við áttum eftir til Reykjavíkur var nánast ólíft í lestinni sem og í vélarúmsganginum aftan við göngubrúna í lestinni. Þessu fylgdi mikill sviði í öndunarvegi, höfuðverkur og flökurleiki. Þegar til Reykjavíkur var komið, mættu fulltrúar frá Vinnueftirlitinu á staðinn og lögðu blátt bann við því að byrjað yrði að losa lestina fyrr en búið væri að loftræsta og hver sá verkamaður sem þurfti starfs síns vegna að fara um borð, var skyldaður til að vera með gasgrímu, enda efnin náskyld blásýru. Það skipti hinsvegar engu máli með áhöfn skipsins. Hún þurfti enga sérstaka vörn. Aukinheldur hafði Tollgæslan innsiglað blásaraklefann fyrir loftræstingu íbúðanna til að tryggja enn frekar fljótan dauðdaga ef loftræstikerfið bilaði eða rafmagn færi af því. Slíkt kallast að fara offari í embættisskyldunum, en vaktstjóri Tollgæslunnar við komuna til Reykjavíkur treysti ekki innsiglismöguleika frystikistu sem var inni í blásaraklefanum.

Á þessum tíma var ekki búið að finna upp dramatíseríngu, NFS né Stöð 2 og Helgi Seljan fréttamaður enn með bleyju. Því fór lítið fyrir fréttum af þessu atviki. Ég minnist þess reyndar ekki að nokkuð hafi komið um þetta í íslenskum fjölmiðlum. Ég held við getum þakkað Guði fyrir að engum ungum fréttamanni tókst að gera múgæsingu úr hlutunum.

Af hverju þurfa fréttir af svona hlutum annaðhvort að vera of eða van?


0 ummæli:Skrifa ummæli