fimmtudagur, júní 08, 2006

8. júní 2006 – Á 117 km hraða og Keilir

Um daginn var ég á ferð eftir Keflavíkurveginum þar sem búið að tvöfalda hann. Þar sem ég ók í hinum mestu makindum, kom skyndilega sportútgáfa af BMW framúr mér, hvissssssssss og svo var hann horfinn út í náttmyrkrið. Þótt mér fyndist ég vera stopp á veginum, labbaði ég ekki út úr bílnum, en bætti örlítið við bensíngjöfina um leið og ég fór framúr hægfara vöruflutningabíl. Rétt um leið og ég náði framúr flutningabílnum voru mér sýnd blá ljós lögreglubíls sem stóð kyrrstæður á milli akreina.

Jahérna, er verið að safna fyrir lögreglukórinn hugsaði ég um leið og ég gaf stefnuljós af veginum og stöðvaði minn vinstrigræna eðalvagn. Síðan fór ég úr bílnum og að lögreglubílnum þar sem ég settist afturí og átti ýmislegt vantalað við lögregluna.

“Af hverju tókuð þið ekki manninn á undan mér” spurði ég, hann var á að minnsta kosti 200 ef ekki enn meira. Það var enginn á undan þér svaraði lögreglan, en við mældum þig á 117”.

Það var greinilegt að lögreglan vildi ekkert tala um manninn á Bimmanum og vildi bara skrifa skýrslu. Ekki var til að bæta úr að samkvæmt skýrslunni sem blessaður maðurinn skrifaði, var hann úr Hafnarfirði og því vonlaust að halda uppi rökræðum við hann. Samt reyndi ég.

Hann skrifaði að minn eðalvagn væri grænn. Ég mótmælti og benti honum á að hann væri vinstrigrænn. Hann gerði enga tilraun til að leiðrétta sína eigin skýrslu. Svo varð ég slegin út af laginu því vinkona mín sem ég hafði sótt til Keflavíkur kom að og fór einnig að kvarta yfir Bimmanum svo varla var hann nein ímyndun. Ég reyndi að vera kurteis, en ég get bara ekki skilið hvernig Hafnarfjarðarlögreglan missir af fólki á yfir 200 km hraða til þess að ná bíl sem kemur í kjölfarið og sem rétt kemst yfir hundraðið.

Daginn eftir keypti ég mér hljómdiskinn með Lögreglukórnum. Hann er allavega þægilegri refsing en einhverjir þúsundkallar í tilgangslausa sekt.

-----oOo-----

Í gær montaði ég mig af göngunni á Keili og því til staðfestingar fylgja myndir merktar fjallgöngu á myndasíðunni minni til hliðar við bloggið. Þegar ég var uppi á toppnum, spáði ég ekkert í þessa rauðu málningu sem hafði verið spreyjað neðan á kassann sem geymir gestabók fjallsins. Í afslöppun kvöldsins fór ég að skoða myndir frá Keili, þar með taldar myndir sem Norðmaður einn tók. Þar kemur greinilega í ljós að kassinn utan um gestabókina er gjöf frá ALCAN, þ.e. álverinu í Straumsvík, en einhverjir svokallaðir umhverfisverndarsinnar hafa séð ástæðu til að fara upp á Keili til að má út nafn fyrirtækisins af kassanum. Þetta finnst mér lélegt og ættu þeir sem standa að slíkum skemmdarverkum að skammast sín.

Það er hægt að setja ýmislegt út á starfsemi álvera í heiminum. Það er þó staðreynd, að sérstaklega ÍSAL (ALCAN) og síðar Bechtel (ALCOA) hafa gjörbreytt vinnuöryggismálum á Íslandi. Lengi vel stóð ALCAN eitt í því að innleiða öryggisstjórnunarkerfi á Íslandi, en svo smám saman fylgdu fleiri fyrirtæki á eftir, þar á meðal Orkuveita Reykjavíkur. Á sama tíma og ALCAN var með mjög strangt kerfi til öryggis starfsmanna sinna, voru íslenskir útgerðarmenn enn að svipta íslenska sjómenn lífinu. Betur að þeir hefðu fylgt öryggisstjórnunarkerfi ALCAN. Þá væru fleiri íslenskir sjómenn á lífi í dag.

ALCOA á Reyðarfirði er að innleiða mun strangara öryggisstjórnunarkerfi en ALCAN hefur gert. Úr fjarlægð hlæja Íslendingar og finnst þetta öryggiskjaftæði sem grín. Sem betur fer eru til Íslendingar sem meta öryggið umfram gróðavon útgerðarmannsins. Við sem það gerum, fögnum gestabókum á Keili og víðar sem hafa verið færð þangað sem gjöf. Takk Rannveig.


0 ummæli:







Skrifa ummæli