þriðjudagur, júní 27, 2006

27. júní 2006 - Orri og Bush


Ég sá í netútgáfu Morgunblaðsins að George Bush væri væntanlegur til landsins og brá illilega í brún. Svo komst ég að því að þetta var vitlaus Bush, kannski ekki beinlínis vitlaus, en engu að síður faðir hins vitlausa George Dobbljú Bush. Í fréttinni var síðan sagt frá því að hann ætlaði að koma hingað í boði Ólafs Ragnars Grímssonar, en ætlaði svo í laxveiði í boði Orra Vigfússonar.

Mér létti við að uppgötva að sá alversti væri ekki á leiðinni hingað til lands og gladdist við frétt þess efnis að Bush ætli að stunda laxveiðar með vini sínum Orra Vigfússyni. Þeir hafa vafalaust heilmikið að ræða um. Bush getur t.d. frætt Orra um það hvernig hann sprengdi Bagdað aftur á steinöld árið 1991 og Orri getur sagt Bush frá óskadraumi sínum sem er að rífa fyrstu rafstöð Reykvíkinga sem er um leið lifandi minnisvarði um rafvæðingu Íslands og getur hann í leiðinni fengið ráð hjá Bush um hvernig hann geti sprengt Elliðaárstöð og stíflumannvirkin aftur á steinöld. Þeir geta svo velt fyrir sér hvernig hægt verði að pynta ætlaða talíbana til segja sér frá því er talíbanar sprengdu ævaforn líkneski í Afganistan sumarið áður en Bandaríkin réðust á landið. Síðan munu þeir væntanlega reyna að útrýma eins mörgum löxum og þeir komast yfir að drepa, en það virðist helsta markmið Verndarsjóði villtra laxastofna, að útrýma laxinum samanber veiðiferð þeirra vinanna.

Einhverjum kynni að detta í hug að þarna hæfi kjaftur skel.

-----oOo-----

Ég er að velta fyrir mér af hverju Morgunblaðið er orðið helsta vopnið í rógsherferð Jónínu Ben og Jóns Gerald Sullabergs eða hvað hann nú heitir sá ágæti maður á hendur bleika svíninu og Jóni Ásgeiri Jóhannessyni. Blaðið hefur verið svo uppfullt samsæriskenninga síðustu tvo dagana að ég man vart annað eins og á það bæði við um Baug og Suðurlandsslysið.

-----oOo-----

Loks ber að fagna góðum áfanga í átt að réttindum samkynhneigðra sem hafa öðlast lagagildi í dag, 27. júní á tíu ára afmæli stóra dagsins þegar lögin um staðfesta samvist öðluðust lagagildi.

-----oOo-----

Svo á Elliðaárstöð 85 ára starfsafmæli í dag og er hún enn keyrð á daginn á veturna með fullum afköstum 3,2 MW. Geri önnur raforkuver slíkt hið sama. Þvílík gersemi sem Reykvíkingar eiga þarna.


0 ummæli:







Skrifa ummæli