föstudagur, júní 16, 2006

16. júní 2006 – Eiður útherji

Ég man þá tíð er fótboltakappar fóru frægðarför um bæinn og spörkuðu bolta. Margir voru röndóttir og báru nöfn og síðar númer í samræmi við stöðu sína á knattspyrnuvellinum. Einn var Gunnar Felixson miðframherji eða senter, Hörður bróðir hans fyrir aftan hann sem framvörður og enn aftar var Bjarni bróðir þeirra sem var fúlbakk eða bakvörður og loks var Heimir Guðjónsson í markinu. Í framlínunni voru margir merkismenn auk Gunnars, Ellert Schram, Sveinn Jónsson, Þórólfur Beck og Gunnar Guðmannsson sem mig minnir að hafi verið útherji. Allt voru þetta hörkukarlar sem unnu sina vinnu allan daginn og skruppu á völlinn eftir kvöldmat og unnu glæsta sigra.

Menn fengu númer í samræmi við stöðu sína í liðinu, markmaðurinn var númer eitt og útherjarnir númer sjö og ellefu. Ef menn höfðu hærra númer voru þeir varamenn, varamarkmaðurinn var þá númer 12 og hægri varaútherji númer 22. Auk þessa héldu menn sig í sama liðinu alla sína tíð. Ef þeir voru fæddir í vesturbænum, urðu þeir KR-ingar og spiluðu með KR og loks jarðaðir með KR-fána ofan á kistunni.

Nú er öldin önnur. Sagan segir að Jói útherji hafi byrjað að spila sem innherji hjá Val áður en hann hækkaði í tign og varð útherji hjá KR, Þórólfur Beck var seldur til Skotlands og Pétur Pétursson spilaði með ÍA og svo Feyenoord. Svo varð þetta að bissniss. Nú eru nýjustu fréttirnar þær, að Eiður varamaður hjá ensk-rússneska liðinu Seltjörn hefur nú verið seldur mansali fyrir rúman milljarð og er nú kominn með töluna 7 hjá Barþelóna á Spáni og ætti þar af leiðandi að fá að spila sem útherji í aðalliðinu.

Ekkert skil ég í því af hverju Barþelóna auglýsti ekki bara eftir hæfum útherja í liðið í stað þess að standa í svona vafasömum fjárfestingum?

Þeir voru mun ódýrari Íslendingarnir sem voru seldir mansali sunnan við Njörvarsundið árið 1627.

-----oOo-----

Ég bíð þess enn að hin nýja stjórn Orkuveitunnar komi og kynni sig fyrir aumu starfsfólkinu. Það er ekki seinna vænna því kveðjuathöfn um gömlu góðu stjórnina verður haldin á mánudaginn kemur.


0 ummæli:Skrifa ummæli