laugardagur, júní 03, 2006

3. júní 2006 – Hinsta kveðja Framsóknar

Sú var tíðin að til var fólk sem hafði hugsjónir. Einnig Framsóknarmenn sem höfðu hugsjónir. Þeir trúðu á framgang samvinnuhreyfingar og félagslegra afla í atvinnulífi jafnt sem félagslífi og þeir voru reiðubúnir að leggja mikið í sölurnar fyrir málstaðinn. Svo kom Jónas frá Hriflu og með honum hagsmunapotið. Einhversstaðar hefi ég heyrt því fleygt að Jónas hafi innleitt þá bitlingapólitík sem löngum hefur einkennt Framsóknarflokkinn, en til þess að tryggja flokknum framgang, hefur löngum verið nauðsynlegt að tryggja flokksmönnum feit og safarík embætti á meðan hinn þurfandi lýður horfir hungraður á. Til þess að ná þessum markmiðum, hafa atkvæðin skipt minna máli en völdin. Hugsjónirnar gleymdust.

Einhverntímann fyrir skömmu hélt Halldór Ásgrímsson því fram að Framsóknarflokkurinn hafi einungis verið utan ríkisstjórnar í fjögur ár á þeim áratugum sem hann hefur setið á Alþingi. Það eru þá væntanlega árin fjögur sem Viðeyjarstjórnin sat undir stjórn Davíðs Oddssonar 1991-1995. Allt starfið hefur gengið út á að sitja að völdum. Framsóknarflokkurinn náði sæmilegri kosningu 1995 eftir alldapran níunda áratug tuttugustu aldar, en síðan hefur leiðin verið frekar á niðurleið. Tveir krónprinsar flokksins sáu hvert stefndi og yfirgáfu hið sökkvandi skip á meðan formaðurinn reið asnanum á eftir húsbónda sínum inn í stórveldisdrauma og hernaðarhyggju og gat ekkert að gert. Formaðurinn var löngu búinn að glata hugsjóninni og hið einasta sem hann átt eftir var draumurinn um völd. Því hlýddi hann húsbóndanum og hirti valdamolana sem féllu af allsnægtaborði hins fyrrnefnda.

Senn líður að leikslokum hjá formanninum. Hann hefur smám saman verið að komast upp á kant við suma flokksmenn sem telja að tími sé kominn til að skipta út forystunni. Öfugt við húsbónda sinn sem hætti þegar leikur stóð sem hæst, stefnir í að Halldór Ásgrímsson muni yfirgefa hripleka skútuna á leið í strand.

Ég á ekki von á því að íslenskir friðarsinnar muni sakna Halldórs Ásgrímssonar þegar hann stígur af stalli sínum.


0 ummæli:Skrifa ummæli