laugardagur, júní 10, 2006

10. júní 2006 - Af píslarvætti Framsóknarflokksins

Fyrir löngu átti ég í talsverðum erfiðleikum vegna persónulegra vandamála og öll sund sýndust vera lokuð. Það hvorki gekk né rak í baráttu minni fyrir því að fá að vera ég sjálf og ég vorkenndi sjálfri mér. Ég barmaði mér stöðugt úr því að allir voru svo vondir við mig og það var fullt af fólki í kringum mig sem fylltist hluttekningu og vorkenndi mér. Ein vinkona mín hegðaði sér öðruvísi. Í stað þess að taka þátt í vorkunnarkórnum, gerði hún grín að sjálfsvorkunn minni og hluttekningu annars fólks. Eins og hún sagði sjálf, þá fengi ég fullt af tárum en engan árangur. Ég hætti að vorkenna sjálfri mér og barðist öllu betur fyrir réttindum mínum og þá fór allt að ganga betur.

Vinkona mín orðaði það á þá leið að sá eða sú sem gerist píslarvottur, vinnur enga sigra en getur endað sem lúser.

Framsóknarflokkurinn hefur hegðað sér á þann háttinn að undanförnu. Það var öllu tjaldað til að tryggja flokknum eitt sæti í borgarstjórn og sífellt klifað á því að allir væru svo vondir við Framsóknarflokkinn. Þvílíkir aumingjar. Þótt ég sé aumingjagóð, datt mér ekki til hugar að gefa slíkum lúserum atkvæði mitt í borgarstjórnarkosningunum. Á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins í gær, kvartaði Halldór Ásgrímsson sárlega yfir því hve allir væru vondir við sig og forvera sína í formannsstöðu í flokknum. Það er kannski eðlilegt og verða formennirnir að gjalda fyrir það sem þeir hafa misfarið með. Þeir einir sem eru með hreinan skjöld, sleppa frá skömmunum.

Hermann Jónasson slapp ekki. Hann var staðinn að verki við að skjóta á æðarkollur úti í Örfirisey á sama tíma og hann var lögreglustjóri í Reykjavík og fékk viðurnefnið kollubani fyrir vikið. Hann hefði alveg getað sleppt þessum glæp og komist hjá því að verða atyrtur fyrir þetta athæfi. Ólafur Jóhannesson gerði sig sekan um meiðyrði þegar hann var dómsmálaráðherra og bætti ekki úr skák með því að sinna ekki kvaðningu til dóms. Steingrímur Hermannsson var grunaður um að misnota almannafé þegar hann var forstjóri Rannsóknarráðs ríkisins (grænubaunamálið) Loks gerði núverandi formaður sig sekan um að bendla íslensku þjóðinni við innrás í fjarlægt land og dauða tuga þúsunda Íraka. Hann hefur ekki enn beðið íslensku þjóðina afsökunar á þessum glæp sínum né heldur írösku þjóðina. Hann mun vonandi bera þennan klafa um langa hríð í viðbót. Ætli Eysteinn Jónsson sé ekki einasti formaðurinn í Framsóknarflokknum sem sé nokkurn veginn með hreinan skjöld.

Í stað þess að fara í naflaskoðun og finna út hvað sé að í flokksstarfinu og reyna að bæta úr því sem hefur misfarist, beitir Halldór Ásgrímsson gömlu aðferðinni og gerist píslarvottur. Það er ekkert að Framsóknarflokknum, heldur er íslenska þjóðin bara svo vond við Framsóknarflokkinn. Það er verst að Framsóknarflokkurinn á enga vinkonu sem bendir honum á að hann er á villigötum og einasta ráðið er að bæta innviði flokksins.

Sveiattan!


0 ummæli:







Skrifa ummæli