þriðjudagur, júní 06, 2006

6. júní 2006 - Að kjafta frá leyndarmáli

Um daginn ákvað Halldór Ásgrímsson að segja af sér, setja Finn Ingólfsson inn í embættið sitt óskaplega hljótt og varlega og skella svo tíðindunum fyrirvaralaust framan í þjóðina. Ætlunarverkið mistókst. Einhver Framsóknarmaður eða Sjálfstæðismaður gat ekki setið á sér og lak fréttinni út til þjóðarinnar og ráðagerð Halldórs fór út um þúfur. Ellefu Framsóknarmenn ruddust fram á völlinn og vildu verða formenn og sumir þeirra einnig ráðherrar og sættu sig ekki við að einhver sem væri löngu hættur, yrði tekinn upp af götunni og gerður að formanni og jafnvel ráðherra.

Stóra trompið varð að floppi. Þetta tromp sem átti að bjarga flokknum frá glötun varð kannski til þess að sýna íslensku þjóðinni þá miklu sundrungu sem ríkir innan Framsóknarflokksins þessa dagana. Það skiptir ekki máli hver kjaftaði, en það er óþarfi fyrir Halldór að draga Guðna Ágústsson með sér í fallinu. Allavega man ég ekki eftir opinberum yfirlýsingum Guðna þess efnis að hann styddi innrásina í Írak. Það gerði hinsvegar Halldór Ásgrímsson og ber að gjalda fyrir það með þeirri einu refsingu sem stjórnmálamenn skilja, fylgishruni.

Ég þekki ekki mikið til verka Finns Ingólfssonar. Hann er vafalaust hinn vænsti drengur, en rétt eins og hann sté af stalli árið 1999, fengum við ágætan ráðherra í hans stað, valkyrjuna Valgerði Sverrisdóttur. Af hverju ekki að bjóða henni formannsstólinn? Sjálf hefi ég lengi verið hrifin af þeirri stjórnsemi og ákveðni sem einkennt hefur Valgerði í ráðherraembætti og tel hana fullkomlega hæfa til að leiða Framsóknarflokkinn nú þegar Halldór Ásgrímsson er fallinn af stalli sínum.


0 ummæli:







Skrifa ummæli