Þótt ekki þekki ég mikið til rauna fanga, hefi ég séð einhverjar kvikmyndir þar sem fangar ætla sér að strjúka, grafa heil göng með teskeið eina að vopni, gera kílómetra löng göng með því að fylla buxnavasana af mold og láta sáldrast niður á jarðveginn úr vösunum svo lítið beri á á leyfilegum útivistartímum.
Á sunnudagskvöldið komst ég að svipaðri flóttatilraun. Mínar ástkæru kisur voru búnar að gera sér áætlun um flótta frá mér, því auðvitað eru þær ekkert að tilkynna mér hvað þær aðhafast meðan ég er í vinnunni.
Eftir að heim var komið og ég búin að láta renna í bað, fannst mér grunsamlegt hve Tárhildur grátkisa hafði mikinn áhuga fyrir loftristinni við baðkarið. Ég fór að skoða ristina og sá að búið var að plokka í burtu sílikonið að þremur fjórðu sem hélt loftristinni á sínum stað, þannig að sílikonið hélt einungis ristinni að ofanverðu. Ég lyfti henni og horfði beint í flóttaleg augu Hrafnhildar ofurkisu sem hafði komið sér fyrir undir baðkarinu.
Það var mér bæði ljúft og skylt að tilkynna Hrafnhildi ofurkisu að þessi flóttaleið er ekki sú rétta ef hún vill komast út í góða veðrið. Síðan lokaði ég gatinu aftur með nýjum umgang af sílikon.
Mig grunar að Hrafnhildur ofurkisa verði mér ekki þakklát fyrir lagfæringuna á loftristinni við baðkarið, ekki frekar en fangarnir í kvikmyndinni The Great Escape.
mánudagur, júní 01, 2009
1. júní 2009 - Strokufangar?
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:04
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli