sunnudagur, maí 31, 2009

31. maí 2009 - Kreppa?

Það eru komin mánaðarmót, enn einn nýr greiðslumánuðurinn framundan með vandræðum og höfuðverk eða hvað? Ég fór að velta fyrir mér vandamálum mínum og þjóðarinnar.

90% vinnufærra Íslendinga eru með vinnu. Ég líka. Álíka margir Íslendingar eru með lánin sín í skilum eða þá skuldlausir. Ég er líka með lánin mín í skilum þótt ekki sé ég skuldlaus, með dýrt íbúðarlán, krítarkortaskuldir og yfirdrátt á bankareikningi. Samt hefi ég það ekkert verra en meðaljón og meðalgunna og stend kannski betur en í lok góðærisins alræmda.

-----oOo-----

Fyrir tveimur árum eignaðist ég bókina „Þú átt nóg af peningum“ eftir Ingólf H. Ingólfsson. Þótt ekki tryði ég öllu því sem þar stóð, áttaði ég mig á því við lestur bókarinnar að heimilisbókhald væri nauðsyn og að vextir væru of háir. Vandamál mitt var bara hvernig ég gæti náð niður vöxtunum vitandi að ég hefði engin áhrif á stýrivexti Seðlabankans og ég ýtti vandamálunum á undan mér og var alltaf blönk í lok kortatímabils og um mánaðarmót. Ég gerði mér þó grein fyrir því að ég gæti hugsanlega sparað 30-40 þúsund krónur á mánuði og hélt áfram að eyða umfram efni og greiða alltof mikið í vexti um hver mánaðarmót.

Ofan á öll önnur vandamál var stöðugur þrýstingur á mér í bílamálum. Gamli vinstrigræni eðalvagninn minn frá síðari hluta síðustu aldar þótti fremur þreytulegur og ekki laust við að hann væri farinn að skipta um lit á brettaköntunum að aftan, smárispur hér og þar auk tveggja smábeygla eftir árásir innkaupakerra. Kunningjahópurinn var aukinheldur duglegur að hvetja mig að fá mér nýrri bíl og ég var ekkert frábitin slíku þótt slíkt kostaði áframhaldandi blankheit í góðærinu. Þegar komið var fram á síðari hluta september í fyrra var ég farin að kíkja á bílasölur og meira að segja búin að finna rétta bílinn fyrir mig og ég sendi inn fyrirspurn um bílinn til sölumanns hjá bílasalanum.

Það liðu tvær vikur áður en sölumaðurinn svaraði mér með safaríku tilboði er hann kom úr ferð til útlanda. Í millitíðinni hafði skollið á kreppa, bankakerfið var hrunið og þjóðfélagið í algjöru uppnámi. Og ég þorði ekki að grípa tilboðið góða og ákvað að ná niður vöxtunum fyrst.

Síðan þetta var eru liðnir nærri átta mánuðir. Allt verðlag hefur farið upp úr öllu valdi, útborguð laun mín hafa lækkað vegna minnkaðrar yfirvinnu og hækkaðra skatta og vextirnir hafa verið í hæstu hæðum. Um síðustu áramót fór ég að flokka útgjöldin til að átta mig betur á bruðlinu, borga niður yfirdráttarlánin og hvíla veltukortin um sinn, á meðan ég væri að komast yfir það versta. En það sem mest er um vert er að ég frestaði öllum bílakaupum í minnst eitt ár.

-----oOo-----

Ég ek enn á gamla vinstrigræna eðalvagninum mínum frá síðari hluta síðustu aldar. Brúnu blettirnir á brettaköntunum að aftan hafa stækkað eitthvað, en hann slapp samt í gegnum skoðun án sérstakra ráðstafana í febrúar. Íbúðarlánin hafa vissulega hækkað og eru sennilega búin að ná íbúðarverðinu er þessi orð eru rituð, en það skiptir mig litlu máli því íbúðin var keypt til að búa í henni, en ekki til að selja hana aftur. Kisurnar mínar dafna vel og vextirnir af yfirdráttarlánunum og krítarkortaskuldunum eru á hraðri niðurleið. Í dag hefi ég það betra en í lok góðærisins svokallaða, farin að leika mér að áætlunum um næstu utanlandsferð og sé fram á bjarta daga framundan.

Það er komin kreppa.


0 ummæli:







Skrifa ummæli