laugardagur, maí 16, 2009

17. maí 2009 - Um mótorhjólaslys

Ég var á ferð um Sæbrautina á föstudag og tók þá eftir mótorhjóli sem nálgaðist mig óðfluga. Ég fylltist valkvíða því ökumaður hjólhestsins virtist fara framúr bílum eins og væri hann í stórsvigi. Mér tókst þó að halda mér á hægri akrein um leið og hjólið skaust framúr mér og hélt áfram stórsviginu austur eftir Sæbrautinni. Á sama tíma veitti ég athygli öðru mótorhjóli sem kom á móti og virtist halda uppi samskonar leikfimi vestur eftir Sæbrautinni.

Í gegnum huga mér fór auglýsingin frá Umferðarstofu sem margsinnis hefur verið sýnd í sjónvarpi síðustu dagana, fremur óhugnanleg auglýsing, en því miður sönn.

Fyrir fáeinum árum voru miðaldra hjón að fara á bifreið sinni út frá verslunarmiðstöð í Upplands-Bro norðan Stokkhólms þegar mótorhjól kom og klippti bíl þeirra næstum í sundur. Svo ljót var aðkoman að lögreglan treysti sér ekki til að fullyrða hvort líkin í brakinu væru þrjú eða fjögur fyrr en eftir klukkutíma. Þau reyndust vera þrjú, hjónanna og ökumanns mótorhjólsins. Síðar reiknaði einhver umferðarsérfræðingur það út að miðað við þyngd hjólsins og styrkleika bílsins, hefði hjólið þurft að vera á minnst 175 km hraða til að klippa bílinn svona í sundur, sennilega þó á miklu meiri hraða.

Ef myndirnar eru skoðaðar vel sést hvar mótorhjólið situr fast inni í bílnum. Fyrir áhugafólk um bíla skal þess getið að bíllinn er af gerðinni Volkswagen Golf, en að auki fann einhver það út að hjólið væri af gerðinni Yamaha 750 cc, semsagt ekkert rosalega öflugt hjól.

Það væri ágætt að skoða þessar myndir aftur næst þegar auglýsingin birtist í sjónvarpi.


0 ummæli:







Skrifa ummæli