þriðjudagur, maí 12, 2009

12. maí 2009 – Um kynvillinga, kynskiptinga og aðra fáráðlinga

Á unglingsárum mínum var samkynhneigt fólk kallað öllum illum nöfnum, stundum öfuguggar eða sagt að fólkið væri sódómískt, hvaðan svo sem það orð er komið. Þá voru orð eins og hommar og lesbíur ágætlega þekkt, en ef þau orð komu fyrir í opinberri umræðu, var snarlega strikað yfir þau af málfarsráðunautum og orðið kynvillingar sett í staðinn. Þegar Samtökin 78 voru stofnuð árið 1978 vildu einhverjir háðfuglar í hópi samkynhneigðra nota undirtitilinn Félag íslenskra kynvillinga, en sem betur varð ekkert af slíku og hommar og lesbíur þráuðust í gegnum múra og yfir þröskulda málfarsráðunautanna uns orðin hommar og lesbíur fengu viðurkenningu samtímis því sem samkynhneigð kom inn sem samheiti fyrir þessa hópa í þjóðfélaginu.

Um helgina var unnið hörðum höndum við gerð nýs stjórnarsáttmála Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs og þar kom í mannréttindahlutanum að setja inn í stjórnarsáttmálann ákvæði um bætta réttarstöðu transgender fólks á Íslandi. Fólkið sem vann að stjórnarsáttmálanum setti inn orðin: Hugað verði að réttarbótum í málefnum trans-gender fólks í samræmi við ábendingar Umboðsmanns Alþingis.

Þetta fór heldur betur fyrir brjóstið á málfarsráðunautunum. Rétt eins og fyrir þrjátíu árum er þeir strikuðu yfir homma og lesbíur og settu kynvillinga í staðinn eins og til að niðurlægja þessa þjóðfélagshópa, strikuðu þeir nú yfir trans-gender fólk og settu kynskiptinga í staðinn. Þeir hefðu alveg eins getað sagt kynvillinga enda orðin svipuð að upplagi og bæði ætluð til að niðurlægja viðkomandi einstaklinga. Þetta tókst sem betur fer ekki, því með dyggum stuðningi Dags B. Eggertssonar og síðar einnig Önnu Pálu Sverrisdóttur og fleiri aðila, tókst að henda kynskiptingunum út úr stjórnarsáttmálanum og setja transgender fólkið aftur inn í sáttmálann.

Ég ætla ekki að hafa eftir eldri rammíslensk og viðurkennd orð sem notuð voru um fólk sem þjáist af þroskahömlun eða geðsjúkdómum ýmiskonar. Kannski mættu málfarsráðunautarnir taka einhver þeirra orða til sín sem starfsheiti, t.d. eitthvert þeirra sem eru á lausu í fyrirsögninni.

Ég vil loks þakka Degi B., Önnu Pálu og öðrum sem tóku til máls á fundinum um transgenderákvæðið í stjórnarsáttmálanum á sunnudaginn fyrir skelegg orð og stuðning okkur til handa.


0 ummæli:







Skrifa ummæli