Það er kvartað og kveinað yfir þeim tíma sem það tekur að mynda nýja ríkisstjórn. Ég skil það ekki. Það er verið að kvarta yfir ríkisstjórnarmyndun þótt sama ríkisstjórn sitji við völd og kemur hugsanlega til með að sitja í þeirri næstu. Þó hafa stjórnarmyndunarviðræður tekið styttri tíma en oftast áður.
Það var slegið met í viðræðunum 1991 þegar Davíð og Jón Baldvin féllust í faðma úti í Viðey. Þær viðræður stóðu aðeins í tíu daga. Nú eru einungis liðnir átta dagar frá þeim tíma þegar ljóst var hvaða flokkar gætu myndað saman ríkisstjórn. Meðaltalstími stjórnarmyndana frá 1987 er 13 dagar. Af hverju á þessi stjórnarmyndun tveggja mjög ólíkra flokka að taka skemmri tíma?
Er fólk búið að gleyma ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen sem tók 67 daga að mynda, eða þá seinni ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar 1978 sem tók 66 daga, hvorutveggja þegar þjóðin var að sigla sig í kaf í óðaverðbólgu upp á allt að 80%.
Nei, þótt vika sé langur tími í pólitík, er hún fljót að líða í stjórnarmyndunarviðræðum.
mánudagur, maí 04, 2009
4. maí 2009 - Slóðaskapur við stjórnarmyndun?
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 17:12
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli