föstudagur, maí 29, 2009

29. maí 2009 - Í þá gömlu góðu daga ...

Fyrir síðustu helgi fór aðeins um mig þegar sýndar voru myndir frá hvítasunnugleðinni 1969 austur á Þingvöllum og það sagt vera frá hvítasunnugleðinni 1968 í trailer sem fylgdi kynningu Fréttaaukans. Því auðvitað var ég á Þingvöllum í rigningunni, drullunni og viðbjóðnum sem einkenndi hvítasunnuhelgina 1969.

Það voru fleiri þar en ég. Þar voru 2500 unglingar að drekka sig fulla í fyrsta sinn eða annað eða þriðja. Öfugt við marga var ég edrú, enda nýlega komin með bílpróf og harðneitaði að keyra bíl fyrir einhvern sem var orðinn of fullur til að rúnta um svæðið sjálfur. Að lokum fór hann í bíltúr ásamt einhverjum félögum sínum og festi bílinn svo rækilega í drullunni að bíllinn náðist ekki upp fyrr en gleðinni var lokið og runnið af gæjanum.

Þetta var líka einasta útihátíðin þar sem helsti forvígismaður þjóðarinnar gekk um á milli dauðadrukkinna unglinga til að kynna sér málin með eigin augum og var þetta jafnframt einasta skiptið sem ég hitti Bjarna heitinn Benediktsson. En svona var lífið í þá daga.

Þrátt fyrir allt er margt svipað því sem var fyrir 40 árum. Það er kreppa eins og þá. Það eru gjaldeyrishöft eins og þá og helstu ráð ríkisstjórnarinnar til að afla tekna fyrir ríkissjóð eru hækkanir á áfengi og tóbaki, bensíni og olíum, rétt eins og gerðist iðulega fyrir 40 árum. Og Íslendingar flúðu þúsundum saman til útlanda í atvinnuleit fyrir 40 árum, rétt eins og nú.

Drottinn minn, er hugmyndaflug íslenskra ráðamanna enn háð sömu takmörkunum og fyrir 40 árum? Allavega er ég farin að finna fyrir fiðring undir sólunum.


0 ummæli:







Skrifa ummæli