fimmtudagur, maí 28, 2009

28. maí 2009 - Um einkavæðingu

Ég sat stjörf fyrir framan gamla sjónvarpstækið mitt á miðvikudagskvöldið og fylgdist með þegar sýnt var hvernig stöku ríki höfðu einkavætt, rafmagn, neysluvatn, heilbrigðisþjónustu og lestarsamgöngur með skelfilegum afleiðingum fyrir íbúana. Ég efa ekki að tekin voru slæm dæmi um einkavæðingu og fór að velta þessum hlutum fyrir mér hér á Íslandi.

Einkavæðingin er komið að hluta til í heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Tannlæknakostnaður er alfarið einkavæddur, vinkona mín fór í aðgerð til leiðréttingar á kyni og var frá vinnu í sex vikur. Hún fékk ekki greidd veikindalaun á meðan á veikindunum stóð af því að hjá einkafyrirtækinu sem hún vinnur, eru ekki greidd veikindalaun þegar fólk fer í aðgerð til leiðréttingar á kyni.

Neysluvatnskerfi eru sem betur fer í eigu sveitarfélaga. Aðeins er þó farið að örla á einkavæðingu í rafmagni og heitu vatni með stofnun Geysis Green Energy sem er jú að hluta til í einkaeigu. Og engar eru lestir á Íslandi, því miður, en strætisvagnasamgöngur í eigu sveitarfélaga. Við erum semsagt enn í góðum málum hvað varðar birtu, yl og samgöngur, en þau mál eru hinsvegar ákaflega brothætt.

En ég fór að velta öðru máli fyrir mér. Það voru bara talin upp fjögur atriði í sjónvarpsmyndinni. Það vantaði hið fimmta, auðlindirnar. Þar stendur Ísland ekkert sérstaklega vel með óveiddan fiskinn í sjónum í eigu örfárra kvótagreifa sem eru búnir að veðsetja hann upp í topp í mörg ár framtíðar að hætti Enron, hins gjaldþrota bandaríska orkufyrirtækis.

Við erum kannski þrátt fyrir allt í sömu aðstöðu og þróunarþjóðirnar sem tekin voru mið af í sjónvarpsmynd miðvikudagskvöldsins.


0 ummæli:







Skrifa ummæli