fimmtudagur, maí 07, 2009

7. maí 2009 – Er íslensk þjóð að vitkast?

Stundum þegar ég heyri minnst á skoðanakannanir, fæ ég nettan aumingjahroll af tilhugsun um vesalings fólkið sem tók þátt í skoðanakönnuninni og svaraði út í hött af því að það hélt að könnunin fjallaði um allt annað en það sem raunverulega var spurt um. Frægasta dæmi um slíkt er sennilega þegar guðfræðideildin var látin framkvæma skoðanakönnun um trúhneigð og hamingju Íslendinga og auðvitað reyndust Íslendingar vera trúgjarnastir og hamingjusamastir allra þjóða.

Að undanförnu hefi ég furðað mig á stjórnmálaöflum sem vilja banna Íslendingum að kanna hvað sé hægt að fá í skiptum fyrir aðildarviðræður við Evrópusambandið. Þessari afneitun Sjálfstæðisflokks og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs er að sjálfsögðu stýrt af flokkseigendafélögum þeirra í LÍÚ og þeim Hörleifi og Ragnari. Sjálf hefi ég aldrei getað skilið hvað er svona slæmt við að upplýsa íslenska þjóð hvað fæst í skiptum fyrir aðild að Evrópusambandinu enda sjálf löngu orðin Evrópusinni og meðlimur í Evrópusambandinu með tvöfalt ríkisfang.

Nýjasta skoðanakönnun Gallup sýnir okkur augljóslega að íslensk þjóð vill kynna sér hvað er í boði í Evrópumálunum og ég sé enga ástæðu til annars en að virða þessa skoðun íslensku þjóðarinnar, enda er ég sannfærð um að hægt verður að fá ýmislegt út úr slíkum samningaviðræðum, umfram allt virðinguna sem glataðist með útrásinni og síðar efnahagshruninu.


0 ummæli:







Skrifa ummæli