Ég hefi einu sinni slasast lítillega við vinnu. Það var ekkert stórt vandamál, enda borgaði útgerðin undir mig far heim með næstu flugvél eftir að komið var í land erlendis. Eftir nokkrar vikur í veikindaleyfi, fór ég svo að vinna hálfan daginn á viðhaldsdeild útgerðarinnar og síðan allan daginn eftir því sem heilsan batnaði.
Í dag fæ ég á tilfinninguna að allt sé komið upp í loft. Ekki vegna þess að íslensk fyrirtæki séu hætt að gera vel við það starfsfólk sitt sem slasast við vinnu, fremur vegna fjölda auglýsinga um slysabætur sem fjöldi lögheimtufyrirtækja bjóðast nú til að innheimta fyrir hugsanlega skjólstæðinga sína, svo mikinn fjölda að ætla mætti að um miklar fjárhæðir væri hér um að tefla.
Þessar auglýsingar blasa við allsstaðar, á facebook, dagblöðum, flettiskiltum og svei mér þá ef þær eru ekki líka komnar í sjónvarp. Græðgisvæðingin hélt vissulega innreið sína inn í íslenskt þjóðfélag fyrir fáeinum árum, en ekki átti ég von á því að hún væri orðin svona hræðilega amerísk.
Ég veit ekki hvað skal segja. Skyndilega eru slys og óhöpp orðin að féþúfu og ég óttast að græðgisvæðingin sé komin inn í hina ýmsu anga þjóðlífsins. Þar á ég ekki aðeins við slysabæturnar, heldur og kröfur þeirra sem geta vel greitt skuldir sínar sem þeir hafa sjálfir stofnað til, um niðurfellingar þessara sömu skulda á kostnað okkar hinna og nánast gjaldþrota ríkissjóðs, en fara í greiðsluverkfall ella.
þriðjudagur, maí 05, 2009
6. maí 2009 - Slysabætur
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 23:42
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli