föstudagur, maí 01, 2009

1. maí 2009 - Hornið á Austurstræti og Lækjargötu

Það eru held ég liðin tvö ár frá því húsin á horni Austurstrætis og Lækjargötu brunnu, nánast til ösku. Síðan hefur fátt verið gert á lóðinni annað en að moka óbrunna spýtnabrakinu í burtu og girða rústasvæðið af. Það hafa komið upp allskyns hugmyndir um að endurbyggja húsin í því sem kallað er upprunaleg mynd, þ.e. í einhverri mynd sem enginn þekkir, enda var annað húsið byggt löngu fyrir daga ljósmyndatækninnar og hitt litlu yngra, en enginn núverandi Reykvíkingur man húsin eins og þau litu út í upphafi.

Á dögunum kom fram ný og kannski stórkostleg hugmynd um nýtingu lóðanna fremur en að láta þær standa þarna á bak við girðingu. Ég viðurkenni alveg að ég á ekki hugmyndina, heldur barst mér hún frá Gísla Hrafni Atlasyni (syni Atla alþingismanns). Hún gengur einfaldlega út á að breyta þessum lóðum í vinnusvæði fyrir langyngstu verktakana, þ.e. börnin.

Þegar ég átti leið um miðborgina í kröfugöngu dagsins, staðnæmdist ég við girðinguna og sá fyrir mér þetta flotta leiksvæði innan girðingar. Þar mætti koma fyrir bekkjum og borðum, flottum leikkastala, rólum og öðru því sem börn hafa gaman af á meðan foreldrarnir hvíla sig eftir gönguferð dagsins. Þetta yrði opinn leikvöllur þar sem börn og fullorðnir gætu komið saman og þar sem atvinnulaust fólk fengi vinnu við viðhald og eftirlit. Kostnaðurinn við leiksvæðið yrði hvort eð er álíka mikill og af því að girða svæðið sem er margfalt lægra en af eftirlíkingu húsa sem enginn vill kaupa.

Þar sem ég stóð við girðinguna átti séra Örn Bárður leið framhjá með reiðhjólið sitt og náði ég að planta þessari hugmynd inn hjá honum. Mér fannst hann taka vel í þessa tillögu.

Nú þarf bara að selja skipulagsyfirvöldum þessa hugmynd, en reka þau ella.


0 ummæli:







Skrifa ummæli