þriðjudagur, júní 02, 2009

2. júní 2009 - Notuðu hamarinn hans afa síns!

Morgunblaðið segir frá því að búið er að gera við nærri tveggja alda gamlan bát, Vigur-Breið sem smíðaður var fyrir 1829. Við viðgerðina að þessu sinni var notaður hamarinn hans afa sem hann erfði frá afa sínum. Það er að vísu búið að skipta um haus tvisvar og skaft sex sinnum á hamrinum góða, en samt er þetta gamli góði hamarinn sem einnig var notaður við viðgerðina á bátnum fyrir hálfri öld og fyrir heilli öld og nokkrum sinnum áður.Annars er merkilegt hve sum skip endast vel. Gott dæmi er hið fræga skip Narfi RE-13 sem var smíðað fyrir Guðmund Jörundsson árið 1960 í Rendsburg í Þýskalandi sem síðutogari. Skipinu var breytt í frystitogara fljótlega, síðar í skuttogara um 1974. Nokkrum árum síðar var því breytt í nótaskip og selt austur á Eskifjörð og hlaut þá nafnið Jón Kjartansson SU-111 og reyndist hið mesta happaskip undir því nafni. Fyrir um áratug var skipt um framhluta skipsins og allt ofandekks, nýjar íbúðir og nýr vélbúnaður, reyndar skipt um aðalvél öðru sinni frá upphafi árið 1999.

Skipið heitir nú Lundey NS-14 og er enn gamli góði Narfi í skráningarskjölum. Það má hinsvegar velta fyrir sér hversu mikið er enn eftir af upphaflega Narfa RE-13. Svipað held ég að eigi sér stað varðandi Vigur-Breið þótt ekki ætli ég að álasa þeim sem héldu við bátnum og endurnýjuðu eftir þörfum í gegnum aldirnar, fremur þakka þeim fyrir gott verk og viðhald menningarverðmæta.-----oOo-----

P.s. Myndirnar af Narfa/Lundey eru í eigu Guðmundar St. Valdimarssonar og HB-Granda hf.

http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/06/02/vidgerd_lokid_a_elsta_skipi_landsins/


0 ummæli:Skrifa ummæli