laugardagur, apríl 19, 2008

19. apríl 2008 - Bjarki brást mér.

Mínir menn voru að keppa í spurningakeppninni í sjónvarpinu á föstudagskvöldið, hörkulið og tveir Dalbúar af þremur keppendum Mosfellinga. Það gerist ekki betra. En svo bregðast krosstré sem önnur tré. Enginn keppenda hvorugs liðsins gat svarað auðveldustu spurningum kvöldsins, spurningunum um Juan Manuel Fangio, Keke Rosberg og hinn sjöfalda meistara meistaranna, hinn háæruverðuga ellilífeyrisþega Michael Schumacher.

Og ég sem hélt að Bjarki vissi allt um bíla. Ég man meira að segja ennþá eftir Landróvernum sem presturinn faðir hans átti og græna Willýs steisjóninum sem Jóel faðir Kela og tengdafaðir Diddúar átti lengi, reyndar löngu áður en Diddú flutti í Dalinn góða.

Af hverju gat hann ekki komið til móts við minni mitt af bílnum hans föður síns og svarað einföldustu spurningum úr kappakstri? Ekki gerði steinaldartáningurinn betur með því að byrjað að tala um Emerson Fittipaldi sem varð heimsmeistari einungis tvisvar, 1972 og 1974, en átta menn hafa unnið fleiri titla en hann.

Reyndar held ég að mitt fólk hafi átt við ofurefli að etja. Hið einasta sem getur hjálpað öðrum liðum um stig í keppni við Garðbæingana er að eiga góða hlaupaskó.


0 ummæli:Skrifa ummæli