fimmtudagur, apríl 03, 2008

3. apríl 2008 - Ekki borga fyrir ekki neitt

Einhver góður bloggari var að benda okkur vesælum á að það geti borgað sig að þræta í viðskiptum og nefndi dæmi til sönnunar máli sínu þar sem hann hafði nánast verið hlunnfarinn í viðskiptum, en einungis þrjóskan bjargaði honum frá miklum útgjöldum. Ekki man ég hver þetta var en upp í hugann rifjaðist gamalt ævintýri við stöðumælafyrirtæki.

Það mun hafa verið sumarið 1991 sem ég fór ásamt fleira fólki á flóamarkað suður í Älvsjömässan skammt sunnan (miðborgar) Stokkhólms. Þegar við höfðum átt einhver viðskipti og komum út í bíl, var kominn sektarmiði á bílinn. Í sakleysi mínu hafði ég lagt í gjaldstæði en ekki ókeypis bílastæði.

Ég fór í fýlu. Ég hafði ekki séð neinar tilkynningar um að greiða ætti í bílastæði á þessum stað, hvað þá séð greiðslukassa, sem ég reyndar fann eftir nokkra leit. Eftir að heim var komið settist ég niður og samdi bréf til bílastæðafyrirtækisins og tilkynnti þeim að ég neitaði að greiða sektina upp á 700 sænskar krónur sökum ónógra merkinga um greiðslur á bílastæðunum við Älvsjömässan. Fyrirtækið (einkafyrirtæki)svaraði mér og tilkynnti mér að ef ég greiddi ekki ekki sektina innan viss tíma yrði sektin send til innheimtu fyrir borgardómi Stokkhólms (Stockholms tingsrätt). Ég svaraði í sömu mynt, með hótunum um hið sama.

Málið fór í dóm. Þar var ég sýknuð af kröfunni sökum ónógra upplýsinga um gjaldskyldu á áður umræddum bílastæðum og fékk auk þess fáeinar krónur í bætur fyrir sviða og verk. Næst þegar ég kom að Älvsjömässan voru komin risastór skilti um gjaldskyldu á bílastæðum við sýningarsvæðið.

Nokkru síðar fékk ég bréf frá stöðumælafyrirtækinu sem ég gat um í upphafi þessa pistils. Þar var mér hótað öllu illu og ef ég greiddi ekki áður umrædda sekt myndi málið fara í dóm. Ég svaraði og tilkynnti fyrirtækinu að ef ég fengi svona bréf aftur, myndi ég kæra það fyrir tilraun til fjárkúgunar. Síðan hefi ég ekkert frá því heyrt.


0 ummæli:







Skrifa ummæli