laugardagur, apríl 05, 2008

5. apríl 2008 - Ekki gera ekki neitt???

Systir mín vann í banka í nokkra áratugi, reyndar nýlega látin fara vegna aðhaldsaðgerða bankans. Mágkona mín vinnur í öðrum banka þar sem hún er í góðum metum rétt eins og systir mín taldi sig vera. Þrátt fyrir náin fjölskyldutengsl versla ég við hvoruga.

Þegar ég flutti heim frá Svíþjóð þurfti ég að finna mér banka til að eiga viðskipti við. Eðlilegast væri auðvitað að versla við minn gamla banka, Sparisjóð vélstjóra, en þá kom babb í bátinn. Minn fyrsti vinnustaður á Íslandi var á Eskifirði undir verndarvæng Aðalsteins Jónssonar, Alla ríka, og einasti bankinn á staðnum var Landsbankinn. Því var eðlilegast að hefja viðskipti þar.

Ég fékk fasta stöðu hjá Hitaveitunni og fljótlega eftir að ég hóf störf þar, átti ég erindi í Landsbankann við Grensásveg skammt frá vinnustað mínum. Þá hittist svo skemmtilega á að gjaldkerinn reyndist vera kona sem birtist mér eins og engill með skóflu þar sem ég sat föst í snjóskafli á Nesjavallavegi seint að kvöldi um hávetur og reyndi að krafla snjóinn frá bílnum með hulstri af viðvörunarþríhyrning. Auðvitað hélt ég áfram að versla við þennan sama banka.

Smám saman urðu viðskiptin að föstum viðskiptum og ég tryggði mér fastan þjónustufulltrúa í bankanum. Við settumst niður yfir greiðsluþjónustunni og gerðum greiðsluáætlun. Þegar henni var lokið sagði þjónustufulltrúinn við mig eftirfarandi orð sem brenndu sig inn í hugann: “Mér er sama hverju þú lendir í, ef þú lendir í greiðsluvandræðum, talaðu við mig áður en allt fer úr böndunum.”

Hinn fræga dag 11. september 2001 kom stóra vandamálið. Ég hafði skrifað upp á skuldabréf fyrir ungan mann sem nú hafði verið gjaldfellt og sent í lögfræðiinnheimtu.
Ég talaði við þjónustufulltrúann og hún gekk frá málinu með bros á vör án þess að ég þyrfti að fara á hausinn vegna greiðasemi minnar. Ég var komin út í bíl og að gatnamótum Fellsmúla og Grensásvegar þegar útsending útvarps var rofin vegna flugvélar sem flaug á WTC í New York.

Eins og gefur að skilja hefi ég haldið viðskiptunum við sama banka áfram. Mér hefur verið sýnt traust og ég reyni að svara því trausti, m.a. með því að vera ekki að fela neitt fyrir þjónustufulltrúanum eða bankanum jafnframt því sem ég hefi notað orð þjónustufulltrúans þegar ég hefi reynt að gefa sömu góðu ráðin til fólks sem hefur átt í vandræðum í fjármálum.

Síðar kom í ljós að langamma mín og langalangamma þjónustufulltrúans voru systur vestur í Helgafellssveit á Snæfellsnesi.


0 ummæli:Skrifa ummæli