þriðjudagur, apríl 08, 2008

8. apríl 2008 - Enn af útigangsfólki

Það var sumarið 1974. Ég var stödd á krá í hinni ítölsku hafnarborg Genúa og drakk mitt öl ásamt dönskum skipsfélögum mínum af tankskipi sem ég var ráðin á milli bekkja í Vélskólanum og sem var í þurrkví í Genúa. Inn á krána kom drukkinn maður og lét okkur “baunana” fá það óþvegið á dapurri íslensku. Ég svaraði hástöfum í sömu mynt og sljákkaði þá nokkuð í manninum og gaf hann sig á tal við mig.

Hann kvaðst heita Gunnar og var frá Vestfjörðum. Hann hafði farið til Svíþjóðar ungur að árum og álpast þar um borð í flutningaskip, eða eins og hann sagði sjálfur, skrapp í sumarfrí til Svíþjóðar og var ekki enn kominn úr fríinu. Hafði síðan starfað um borð í sænskum og norskum skipum í hátt í tvo áratugi uns hann var settur í land ásamt öðrum Íslending vegna drykkjuskapar og óláta um borð í norsku skipi í Malaga á Spáni. Eftir þrjú ár á bísanum á Spáni höfðu hann og félaginn lent í útistöðum við réttvísina á Spáni og lögreglan náð félaganum og sent heim í flugpósti. Gunnar komst hinsvegar sem laumufarþegi með dönsku skipi til Genúa þar sem hann hafði verið á bísanum síðan þá þ.e. þremur árum betur.

Ári síðar ræddi ég mál þessa manns við Jónas Árnason rithöfund og alþingismann, enda taldi ég sögu hans best geymda í bók ritaðri af reynsluhöfundi á borð við Jónas. Því miður tókst aldrei að hafa uppi á manninum aftur og veit ég ekki hvort hann hafi endað lífið í eymd og volæði á sólarströndum Ítalíu eða hvort hann komst heim aftur.

Félaga Gunnars af bísanum á Spáni kynntist ég síðar í Vestmannaeyjum og staðfesti hann við mig einhverjar af þeim sögum sem Gunnar hafði sagt mér. Um leið skildi ég mætavel af hverju félagarnir höfðu verið settir í land því það þykir ekki til eftirbreytni að kaupa lifandi asna á markaði á Spáni, drösla honum um borð í skipið í skjóli nætur og reka hann inn til félaga asnans, norska yfirstýrimannsins á skipinu. Slíkt getur ekki annað en komist upp og valdið vandræðum!

Sennilegra er þægilegra að vera útigangsmaður á Ítalíu en á Íslandi, allavega sagðist maðurinn engan áhuga hafa fyrir að flytja heim aftur!


0 ummæli:Skrifa ummæli