mánudagur, apríl 28, 2008

28. apríl 2008 - Af blörruðum borgarstjóra og verkum hans

Í viðtali sem fréttastofa Sjónvarpsins átti við blörraða borgarstjórann velti fréttamaðurinn fyrir sér hárri upphæð sem fyrri meirihluti hafði áætlað til Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkur, en mig minnir að áætlaðar hefðu verið um 85 milljónir í verkefnið. Sá blörraði sem hafði nokkru áður keypt ónýt fúasprek við Laugaveginn á 580 milljónir vildi gera sem minnst úr Mannréttindaskrifstofunni og nefndi önnur verkefni mikilvægari þótt ekki hefði hann nefnt fúaspýtubruðlið sem ítrustu nauðsyn núverandi meirihluta sem virðist þó vera miðað við áherslurnar.

Ég hefi átt góð samskipti við Amnesty síðustu árin og er þar virkur meðlimur. Sömuleiðis hefi ég átt góð samskipti við Mannréttindaskrifstofu Íslands og ber mikla virðingu fyrir þeirri litlu en mikilvægu stofnun þótt Framsóknarflokkurinn hafi lagt stein í götu þessa skilgetna afkvæmis síns með því að minnka verulega veitingu fjármuna úr ríkissjóði til hennar á sínum tíma. Ég átti því von á góðu frá Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkur. Nú hefur sá blörraði ásamt sexmenningaklíkunni tekist að koma í veg fyrir að Mannréttindaskrifstofan geti sannað tilverurétt sinn.

Enn ein ástæðan til að losna við þennan ömurlega svokallaða meirihluta og senda hann í gott frí sem fyrst og ekki síðar en í næstu kosningum þegar oddviti íhaldsins og sá blörraði munu væntanlega hverfa af sviði stjórnmálanna.

Annars er margt líkt með skyldum. Sá blörraði og íhaldið í Reykjavík hafa fallist í faðma rétt eins og ónefndur bæjarfulltrúi og íhaldið í Bolungarvík. Svo er fólk að tala illa um Framsóknarflokkinn.

Allavega finnast mér ákaflega skrítnar áherslurnar í borgarpólitíkinni þessa dagana.


0 ummæli:Skrifa ummæli