sunnudagur, apríl 06, 2008

6. apríl 2008 - Hvað á að gera við rónana?

Það var á þeim tíma sem Þórskaffi var nýlega orðið að skemmtilegum vínveitingastað og Klúbburinn á fallanda fæti að ég fór ásamt hóp af fólki í Þórskaffi til að fagna einhverju sem man ekki lengur hvað var. Þarna inni hitti ég tvo gamla skipsfélaga frá upphafsárum mínum til sjós á nýsköpunartogurunum. Þeir voru að skemmta sér og létu það óspart í ljósi. Öfugt við flesta sem voru að skemmta sér í Þórskaffi þetta kvöld, voru þeir bláedrú. Þeir voru hættir að drekka.

Báðir þessir menn voru undan Jökli. Annar þeirra hafði haldið vinnu alla tíð þrátt fyrir mikla drykkju og óreglu, hinn hafði endað á götunni áður en honum var komið til bjargar og sendur í afvötnun. Hvorugur smakkaði áfengi eftir meðferðina. Ég man vel eftir H. þar sem hann var betlandi fyrir kogga á götum Reykjavíkur. Hann leit hræðilega út og var eins og flak að sjá, öllu verri en sá H. sem ég mætti síðar í Þórskaffi.

Örlög hans voru mér lengi hugleikin. Hvernig leið honum þar sem hann bjó á götunni? Hvernig líður þessu fólki sem hefur tapað öllu, þar á meðal reisn sinni á altari Bakkusar eða fíkniefnadjöfulsins? Hvað verður um þetta fólk? Ég veit að Samhjálp hefur lengi stutt þetta fólk til sjálfshjálpar og jafnvel komið því í meðferð. En þeirra góða framlag nægir ekki alltaf.

Við vitum að gamla farsóttarheimilið nægir engan veginn sem gististaður fyrir heimilislausa karlmenn. Þessvegna finnast þeir öllum að óvörum þar sem kviknar í húsum, venjulega vegna þess að þeir voru að reyna að halda á sér hita. Nú á að negla fyrir allar hurðir og glugga. Stundum finnast þeir dánir undir runna eða á öðrum þeim stað sem engum er ætlaður á köldum vetrarmorgni.

Ég komst ekki í afmælið þegar Svarkurinn hélt upp á 75 ára afmælið með stæl eins og fyrrverandi drykkjumanni sæmir. Hugur minn var samt hjá honum meira en tveimur áratugum eftir að hann drakk sinn síðasta sjúss. Þremur dögum eftir afmælið var hann látinn eftir hjartabilun. Það var miður því hann hafði svo sannarlega margt að segja frá. Ég veit hinsvegar ekki hvar H. er niðurkominn eða hvort hann sé enn ofanjarðar.

Þessir tveir ágætu menn kenndu mér að bera virðingu fyrir fólki, líka þeim sem hafa orðið undir í lífinu.


0 ummæli:Skrifa ummæli