þriðjudagur, júlí 10, 2007

10. júlí 2007 - Benedikt


Ég varð málkunnug Benedikt Lafleur í kosningabaráttunni síðastliðið vor þar sem við vorum að dreifa kosningaáróðri til fólks í Kringlunni. Þótt við værum öndverðrar skoðunar í landsmálum, fór ekkert á milli mála að þarna færi drengur góður og því fylgdist ég aðeins með tilraun hans til að verða fyrstur Íslendinga til að synda yfir Ermarsundið. Mér þótti það miður er hann varð að gefast upp og á ég honum þá ósk til handa að honum muni takast þetta markmið sitt í nánustu framtíð.

Í dag ætlar annar Benedikt að reyna sömu þolraun. Í fréttum sjónvarpsins var hann kallaður Benedikt II (Benedikt annar). Mér finnst þessi nafngift vel til fallin og bíð ég þess nú að Benedikt XVI (Benedikt sextándi) leggi til sunds og busli yfir Ermarsundið. Helsta spennan í því sambandi verður þó ekki um hvort honum takist að synda alla leið, heldur fremur hvort hann muni synda eða beita hinni tvö þúsund ára aðferð forvera síns í starfi og rölta yfir Ermarsundið?


0 ummæli:Skrifa ummæli