föstudagur, júlí 27, 2007

27. júlí 2007 - Faðmlög við bifreiðar!


Á seinnihluta síðustu aldar héldu sænskir umhverfisverndarsinnar uppi borgaralegri óhlýðni í baráttu sinni gegn ýmsu því sem þeir töldu miður fara í samfélaginu. Meðal annars festu þeir sig við tré til að koma í veg fyrir að þau yrðu höggvin og aðrar framkvæmdir hafnar. Af þeim sökum hlutu þeir gælunafnið trädkramare (sá sem faðmar tré) og hefur þetta gælunafn orðið að samheiti fyrir borgaralega óhlýðni í Svíþjóð eftir það.

Að undanförnu hefur talsvert borið á hreyfingunni Seifing Æsland sem hefur það að markmiði sínu að bjarga Íslandi frá sjálfu sér. Öfugt við sænska umhverfisverndarsinna hafa þessir lítinn áhuga fyrir því að faðma trjáplöntur sbr að þeir hafa látið skógarhöggið á Þingvöllum afskiptalaust. Þess í stað hefur þetta unga fólk hlekkjað sig við bíla í minnst tveimur aðgerðum, við Grundartanga og Hellisheiðarvirkjun. Þegar haft er í huga að það er heilmikið ál í nær öllum bílum í dag, t.d. í vélablokkum, gírkassa og drifhúsum auk margra annarra hluta, mætti halda að þeir væru að berjast fyrir bættum áliðnaði á Íslandi.

Ónei, ekki alveg því Seifing Æsland hefur þegar mótmælt við öll álverin svo vart vilja þeir vernda áliðnað á Íslandi. Því geta faðmlög þeirra við bifreiðar í mótmælaaðgerðum þeirra aðeins þýtt eitt. Seifing Æsland berst fyrir verndun hins íslenska bílisma.


0 ummæli:







Skrifa ummæli