mánudagur, júlí 09, 2007

9. júlí 2007 - Göngugarpur?

Ég sé á athugasemdum við bloggið mitt að sumir bloggvina minna álíta mig einhvern ægilegan göngugarp. Það er rangt. Ég er algjör vesalingur í fjallgöngum og fer þessar ferðir meira af vilja en mætti.

Síðast þegar ég rölti á Esjuna, fyrir tveimur vikum, fór ég upp á rúmlega tveimur tímum og var gjörsamlega örmagna er upp var komið. Síðan var það bara þrjóskan sem fékk mig til að halda austur á Hábungu. Þegar þangað var komið þurfti ég, hvort sem mér líkaði betur eða verr, að halda nánast sömu leið til baka. Ekki af því að mig langaði til þess, en mér finnst skemmtilegra að skila mér aftur heim til mín en að verða úti á fjallinu.

Í framhaldi þeirrar göngu og þess hve mér hefur gengið illa að byggja upp þol síðan ég hóf að rölta á fjöll, pantaði ég mér tíma hjá lækni eftir síðustu Esjugöngu. Læknirinn sá hefur haldið mér við efnið í heilsufari síðasta áratuginn og var ekki lengi að finna út í hverju vandamálið væri fólgið. Síðasta áratuginn hefi ég tekið blóðþrýstingslyf og hann vildi meina að ég þyrfti að minnka notkun þeirra. Þau héldu hreinlega aftur af eðlilegu blóðstreymi til fótanna þegar ég reyndi á mig.

Nú eru komnir tíu dagar síðan ég hóf að minnka notkun á blóðþrýstingslyfjum og ég er ekki frá því að hann hafi rétt fyrir sér. Kannski næ ég því að verða þessi göngugarpur sem Ylfa Mist og fleiri halda mig vera.


0 ummæli:







Skrifa ummæli