fimmtudagur, júlí 26, 2007

26. júlí 2007 - Hver er munurinn?


Fyrir fjórum árum síðan réðist danski herinn með hjálp bandamanna sinna inn í Írak og hernam landið í óþökk írösku þjóðarinnar. Andspyrnuhreyfing Íraka hefur síðan barist gegn hernámsliðinu og fellt allnokkra hermenn í átökum eða samtals 3931 hermann frá því innrásin hófst, flesta frá bandamönnum Dana frá Bandaríkjunum. Það er þó einungis örlítið brot af þeim mikla fjölda Íraka sem hefur verið felldur af innrásarherjunum frá Danmörku og bandalagsríkjum þeirra.

Nú hefur dansk-palestínska þingkonan Asmaa Abdol Hamid verið kærð fyrir landráð í Danmörku með því að hún bar innrás Danmerkur í Írak saman við innrás Þýskalands í Danmörku 1940 og bar dönsku andspyrnuhreyfinguna saman við þá írösku. Ég spyr bara, er einhver munur á danskri innrás í Írak eða þýskri innrás í Danmörku?

Jú, það er einn stór munur. Danski herinn þurfti að ferðast á milli heimsálfa áður en hann komst á áfangastað þar sem hægt var að ráðast inn í ókunnugt land. Það hafa hinsvegar verið talsverður skærur danskra stjórnvalda við nágrannaríki sín í gegnum aldirnar vegna landamæra sinna. Því er þýsk innrás í Danmörku 1940 mun skiljanlegri en dönsk innrás í Írak árið 2003 þótt mér komi ekki til hugar að mæla neinni innrás bót, hvorki innrás Þjóðverja 1940 né þeirri sem Danir frömdu 2003.

Er ekki kominn tími til að danska ríkisstjórnin læri að skammast sín og hunskist heim með árásarher sinn frá Írak?

Það væri fróðlegt að heyra álit fólks á þessu máli.


0 ummæli:







Skrifa ummæli