laugardagur, júlí 14, 2007

14. júlí 2007 - Hrafnhildur ofurkisa


Í fyrrakvöld fór heilsan hjá mér í baklás. Ég hafði verið í burtu allan daginn og þegar ég kom heim og hristi lyklakippuna kom engin þreytt Hrafnhildur ofurkisa á móti mér eins og hún var vön að gera.

Hvar var Hrafnhildur? Ég gekk um allt hverfið hristandi lyklakippuna eins og gamall húsvörður og engin Hrafnhildur kom á móti mér. Okkur Tárhildi vælukisu gekk illa að sofna um nóttina, vitandi af Hrafnhildi úti í nóttinni.

Á fimmtudagsmorguninn vaknaði ég eldsnemma og rauk fram til að hleypa Hrafnhildi inn, en engin Hrafnhildur beið við dyrnar. Ég fór að hafa áhyggjur, ekki síður en vesalings Tárhildur sem hágrét og kallaði á systur sína sem svaraði engu. Til að gera málin enn verri þurfti ég að undirbúa mig fyrir útvarpsviðtal og kisan mín ennþá týnd. Ég hringdi í Kattholt. Engin Hrafnhildur þar, en Sigga í Kattholti lofaði að láta mig vita ef Hrafnhildarleg kisa kæmi í heimsókn.

Rétt áður en ég fór að heiman í útvarpsviðtalið tók ég einn hring um hverfið með lyklakippuna. Heyrði ég þá ámáttlegt væl úr runna rétt við húsið heima og sjá. Þarna var Hrafnhildur ofurkisa komin, glorhungruð, skítug og þreytt. Hún neitaði að segja mér hvar hún hafði haldið hús, lét sér nægja leyndardómsfullt bros um ævintýri næturinnar, gekk beint að dallinum sínum og tæmdi í örfáum munnbitum.

Ég og Tárhildur gátum tekið gleði okkar á ný og ég mætti á réttum tíma í útvarpsviðtalið.

-----oOo-----

Svo fær Victoria Ingrid Alice Desirée krónprinsessa Bernadotte hamingjuóskir með þrítugsafmælið í dag og jafnframt fær franska þjóðin hamingjuóskir með 218 ára byltingarafmælið.


0 ummæli:Skrifa ummæli