fimmtudagur, júlí 12, 2007

12. júlí 2007 - GéPéEssinn minn


Um daginn fékk ég rándýrt GPS handtæki í hendur og ætti nú að vera fær í flestan sjó, allavega ekki seinna en ég hefi lært á tækið góða.

Ástæða þess að ég lagði í þessa góðu fjárfestingu kemur ekki til af góðu. Í fyrrasumar ákváðu fimm konur og einn karl að ganga hina frægu Selvogsgötu frá Selvogi til Hafnarfjarðar. Um morguninn áður en lagt var af stað, hætti karlmaðurinn við að fara með okkur, enda þjáðist hann af óvæntum timburmönnum. Það að maðurinn hætti við var í sjálfu sér afsakanlegt, en vandamálið var bara að hann einn átti GPS tæki og því urðum við að halda til óbyggða án löglegra leiðsögutækja.

Svo skall á þoka. Er þokunni létti nokkrum klukkustundum síðar, sáum við ekki til Hafnarfjarðar, heldur Þorlákshafnar. Ferðasagan er hér og myndirnar hérna .

Ástæður skrifa minna eru ekki að endursegja gamla sögu heldur allt aðrar. Á hverju hausti týnast fleiri rjúpnaskyttur nema þá helst árin tvö góðu sem rjúpan var friðuð. Oft eru þessar rjúpnaskyttur vanbúnar til ferða um hálendið og ferðalag þeirra ein samfelld sorgarsaga fyrir þær sjálfar og hundruð leitarmanna sem eyða dýrmætum tíma og fjármunum í að leita týndra ferðamanna.

Af hverju leigja hjálparsveitirnar ekki út GPS tæki til fólks sem ferðast um í óbyggðum? Ég skil vel að fólk sem er sjaldan á ferð sér enga ástæðu til að leggja í kostnað upp á allt að 80.000 krónur til að nota einu sinni eða tvisvar á ári. Hinsvegar gæti verið stórsniðugt að einhver tæki að sér að leigja út svona tæki til ferðamanna.

Mín fjárfesting ætti þó að geta skilað sér í notkun tækisins í evrópskum stórborgum þar sem ég hefi oft gengið vitlausa götu á leiðinni heim á hótel.

-----oOo-----

Tvær ungar konur sem sýndu af sér óvenjulega mikinn andlegan styrk hafa bloggað reglulega og lýst áhyggjum sínum, gleði og sorgum þar sem þær þjáðust af krabbameini. Fyrir nokkru lést Ásta Lovísa Vilhjálmsdóttir og nú er Hildur Sif Helgadóttir einnig látin. Tilvist þeirra í bloggheimum gerði heiminn fegurri, ekki bara bloggheiminn, heldur og veröldina alla. Megi fjölskyldur þeirra eiga samúð okkar alla og við skulum minnast þeirra í bænum okkar.


0 ummæli:







Skrifa ummæli